Flutningur hættulegra efna um jarðgöng

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 13:59:21 (1236)

2000-11-02 13:59:21# 126. lþ. 19.5 fundur 93. mál: #A flutningur eldfimra efna um jarðgöng# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum þáltill. fyrir að flytja hana. Það er sannarlega full ástæða til að flytja þetta mál og ég vona að það komist til framkvæmda sem allra fyrst. Það er engin spurning um það í hugum þeirra sem hafa farið þarna mikið um og þekkja til að veruleg hætta er á ferðum í göngunum. Þar hafa orðið óhöpp sem benda eindregið til þess að við getum átt von á árekstri þar hvenær sem er. Bílar hafa lent á köntum sem eru út við gangaveggina og nokkur óhöpp hafa orðið í göngunum á þann veg að bílar hafa lent á þessum köntum og farið þá þvert yfir göngin og í vegginn hinum megin. Og auðvitað getur annar bíll verið að koma á móti þegar svona lagað gerist og þá verða árekstrar og við árekstur geta auðvitað kviknað eldar. Fyrir utan það að stórir bílar sem fara þarna um eru seinni til að stöðva þegar eitthvað slíkt kemur fyrir á móti þeim eða hendir snögglega.

[14:00]

Það er því engin spurning um að áhættan er þarna fyrir hendi og hún er mikil og ég tek undir það að sú leið sem er þá möguleg, að keyra fyrir Hvalfjörð, er opin og greið, vegurinn er ágætur á þeirri leið og engin umferð eða mjög lítil. Þetta er þá fyrst og fremst spurning um þann kostnað sem hlýst af því að flytja eldsneytið fyrir Hvalfjörð en ég held að menn verði að horfast í augu við það að þar verður að setja öryggið hærra en kostnaðinn ef ekki er mögulegt að skipuleggja flutninga í gegnum göngin þannig að þeir eigi sér stað á tilteknum tímum og á meðan yrðu göngin lokuð fyrir annarri umferð. Það þyrfti svo sem ekki að vera langur tími sem göngin væru lokuð fyrir annarri umferð. Kannski er sú leið talin það óheppileg að hún komi ekki til greina en vissulega mætti kannski skoða það nánar hvort slíkt kæmi til greina.

Stöku sinnum er verið að auglýsa lagfæringar á göngunum sem fara þá fram að næturlagi og ég verð ekki var við það að menn kvarti neitt sérstaklega undan því að umferð sé stöðvuð í gegnum göngin á þeim tíma sem viðgerðir fara fram. Það er því vissulega hugsanlegt að skipuleggja einhverja umferð með þeim hætti gegnum göngin en þessi þáltill. er mjög gagnleg og full ástæða er til þess að hún fái framgang og að menn finni þarna niðurstöðu annaðhvort með því að banna þessa flutninga alfarið eða koma þeim í þann farveg sem tryggir að fullu öryggi.