Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 15:43:27 (1266)

2000-11-02 15:43:27# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Þetta hefur verið um margt fróðleg umræða sem segja má kannski um lítið mál, þ.e. í peningalegu tilliti, en málið er stórt að því leytinu til að með álagningu þess gjalds sem hér um ræðir er verið að senda ákveðin skilaboð út í samfélagið og þá ekki síst til landsbyggðarinnar. Hér er verið að hafa áhrif á kostnað við innanlandsflug. Ef farið er í gegnum allar þær viðvaranir sem fram komu þegar verið var að fjalla um það hvort það ætti að leggja gjaldið á eða ekki skín það ætíð í gegn að þetta muni hafa áhrif í þá átt að hækka flugmiða. Þess vegna er þetta sannkallaður flugmiðaskattur.

Ekki nóg með það heldur er einnig bent á að þetta geti valdið ákveðnum vanda hjá þeim aðilum sem átt hafa raunverulega í nægum vanda fyrir áður en þetta gjald var lagt á. Þess vegna m.a. er það með ólíkindum að gengið sé fram með þessum hætti og síðan skömmu síðar komist að þeirri niðurstöðu sem rétt er að það sé miklum mun nær að styðja innanlandsflugið á einhvern hátt. Nú er það mál í ákveðnum farvegi og við eigum eftir að sjá hvernig það kemur út en við skulum vona að það verði til þess að efla innanlandsflugið því að vissulega er þörf á því. (Gripið fram í.)

[15:45]

Ég vil sjá, hæstv. ráðherra, hvernig það skilar okkur fram. Það eru auðvitað ýmsir möguleikar í því að styðja innanlandsflugið. Ég er alla vega ekki í þeirri stöðu að hafa uppi mikinn hávaða um það að verið sé að fara alranga leið í því. Ég sé ekki strax nákvæmlega hvað út úr henni kemur því að við þurfum auðvitað líka að velta fyrir okkur samkeppninni í innanlandsfluginu. Ég er auðvitað sammála hæstv. ráðherra um að málið er ekki einfalt og það þarf auðvitað að vanda sig við það.

Sá þáttur málsins sem hér er til umræðu er hins vegar af þeirri gerðinni að vænlegast væri að samþykkja það frv. til laga sem hér er til umræðu og koma þannig skilaboðum þveröfugum fram um það að menn vilji í raun og veru hlúa að innanlandsfluginu á allan hátt.

Herra forseti. Það var annað sem hæstv. ráðherra kom inn á sem ég held að sé nauðsynlegt að nefna örlítið. Það var varðandi framtíð innanlandsflugsins og tengsl þess við Reykjavíkurflugvöll. Ég get hresst hæstv. ráðherra með því að ég er talsmaður þess að innanlandsflugið verði áfram á Reykjavíkurflugvelli, ég tel það afar mikilvægt, m.a. vegna þess að menn hafa gert svo mörg mistök í uppbyggingu stjórnsýslunnar að fólk þarf að eiga greiðan aðgang að henni eins og henni er fyrir komið nú og þess vegna m.a. er mjög nauðsynlegt að Reykjavíkurflugvöllur sé staðsettur hér. Það skapar mikið hagræði að vera svo nálægt miðbæ borgarinnar þar sem stjórnsýslan er að mestu leyti. Það mun því ekki standa á mér í þeim stuðningi ef á þarf að halda að reyna að tryggja framtíð flugvallarins hér að þessu óbreyttu. Ég er hins vegar ekki að segja það í þessu frekar en öðru að það skuli ætíð vera svo að Reykjavíkurflugvöllur skuli vera þarna. Það geta vissulega skapast þær aðstæður að rétt væri að færa hann en þær aðstæður eru ekki til staðar í dag og þess vegna er eðlilegt að hann verði þarna áfram.

Það er eitt atriði, herra forseti, sem rétt er að vekja athygli á og það er að hæstv. forseti er sá eini hér í þessum sal sem tilheyrir hinum merka þingflokki framsóknarmanna. Þess vegna er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér þeirri staðreynd að framkvæmdastjóri þingflokks Framsfl., sem sæti á í flugráði, greiddi þar atkvæði gegn því gjaldi sem við ræðum hér. Allt í kringum þetta mál ber þess merki að Framsfl. hafi að líkum ekki glaður greitt því atkvæði að leggja þetta gjald á og því verður fróðlegt að fylgjast með hvort þeir ágætu hv. þm. ganga ekki til liðs við okkur í því að reyna að koma þessu gjaldi frá.

Herra forseti. Meginástæðan fyrir því að ég tók hér til máls var að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra um tölur þótt lágar séu vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að ekki væri ætlunin að hækka það gjald sem hér um ræðir og það sé ekki fyrirhugað á næstunni. Eðlilegt er að við tökum fullt mark á þeim orðum og fögnum þeim í raun og veru svo langt sem þær ná vegna þess að með þessu er að sjálfsögðu verið að bakka örlítið frá því sem augljóslega var fyrirhugað. Eins og við vitum hefur þetta gjald ekki verið innheimt allt þetta ár en hins vegar er árið 2001 gert ráð fyrir að það verði innheimt allt árið.

En meginástæðan fyrir því að ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í tölurnar er sú, ef ég hef heyrt rétt, að hæstv. ráðherra sagði að innheimtar yrðu 15 millj. vegna veðurþjónustugjalds. Í frv. til fjárlaga segir á bls. 455, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir 5 millj. kr. framlagi vegna kaupa á veðurupplýsingum frá Veðurstofu Íslands þar sem samsvarandi fjárhæð verður innheimt af flugleiðsögugjaldi. Þetta mun ekki hafa áhrif á greiðslur úr ríkissjóði.`` --- Eðlilega.

Hér er verið að tala um 5 millj. en hæstv. ráðherra talaði hins vegar um 15 millj. og nefndi einnig að á þessu ári væru innheimtar 30 millj. og það yrði áfram, en veðurþjónustugjaldið væri sem sagt 15 millj. og samtals yrðu þetta 45 millj. kr. á árinu.

Í minnisblaði sem við fengum sent til fjárln. frá samgrn. segir hins vegar orðrétt, með leyfi forseta:

,,Í frv. til fjárlaga fyrir 2001 er gert ráð fyrir að innheimta af flugleiðsögugjöldum aukist um 10 millj. kr. á næsta ári og innheimta af veðurþjónustugjaldi um 5 millj. kr. Því er gert ráð fyrir að leiðarflugsgjald til Flugmálastjórnar verði 45 millj. kr. á árinu 2001.``

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. ráðherra skýri fyrir okkur hvort fyrirhugað sé í raun og veru að innheimta eingöngu 30 millj. kr. fyrir þá þjónustu sem verið er að innheimta fyrir í ár og að það muni þá eingöngu, ef rétt er í fjárlagafrv., bætast við 5 millj., þannig að við séum þá í rauninni að tala um 35 millj. en ekki 45 millj. eins og nefnt hefur verið og þar með sé afturábakgírinn orðinn langlífari en búist var við í upphafi.