Fjarskipti

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:47:24 (1281)

2000-11-02 16:47:24# 126. lþ. 19.6 fundur 159. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:47]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst vegna þess að ég hef átt svolítið bágt með að skilja hvert hv. 13. þm. Reykv. er að fara í málflutningi sínum þó svo að hann sé mjög jákvæður í garð þessa frv. sem ég er meðflm. að. Ég held að hollt sé að hafa meðalhófið að leiðarljósi í þessari lagasetningu eins og annarri. Farsælasta lausnin er að hvorki sé um skilyrðislaust bann við upptöku að ræða né það að allt sé opið. Hér þarf að gæta meðalhófs og frv. gengur út á það að þess sé gætt og það varðar þá sérstaklega starf blaðamanna og lögmæta viðskiptahagsmuni og svo ekki síður ef fólk þarf að vernda sig gegn hvers konar áreiti.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að allir eigi að geta tekið allt upp og að ég geti tekið upp öll samtöl mín við hv. þm. Ögmund Jónasson í síma og það sé bara allt í lagi. Slíkt býður bara upp á misnotkun og ég er því fylgjandi að meginreglan sé sú að persónuverndin sé höfð að leiðarljósi og að upptökur séu ekki leyfðar en á því þurfi að gera undantekningar eins og þær sem við flm. þessa frv. nefnum.

Hvað varðar samskipti blaðamanna og viðmælenda þeirra þá hljóta þau auðvitað alltaf að byggja á trausti. Eins og flestir í þessum sal vita eru þau samskipti með ýmsum hætti og þar eru gildandi ýmsar bæði óskrifaðar og skrifaðar reglur. Það hefur hins vegar borið á því hér á landi, finnst mér, að menn þekki ekki þessar reglur, hvorki fólk sem starfar í blaðamannastétt né þeir sem eiga kannski í sem mestum viðskiptum við það fólk, þ.e. stjórnmálamennirnir. Auðvitað fer það eftir ákvörðun blaðamanns og viðmælanda hvers konar samtal er í gangi, hvort menn eru --- og nú þarf ég að sletta á ensku, herra forseti, --- í samtali on record, off the record eða hvort þeir eru að tala um bakgrunnsupplýsingar. Og þegar menn þekkja þessar reglur vita þeir alveg hvað það þýðir að fara í samtal við blaðamann.

En ég hygg hins vegar, eins og ég sagði hér í byrjun, að við þurfum að gæta meðalhófs í þessu eins og öðru og þess vegna eigi meginreglan að vera sú sem lögin kveða á um en þó með þessum undantekningum.