Heilsuvernd í framhaldsskólum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 17:39:15 (1291)

2000-11-02 17:39:15# 126. lþ. 19.7 fundur 91. mál: #A heilsuvernd í framhaldsskólum# þál., Flm. ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Flm. (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þær góðu undirtektir sem þetta mál hefur fengið á hinu háa Alþingi. Það sem skiptir mestu í þessu sambandi er að í framhaldi af samþykkt þessarar þáltill., sem ég vona að af verði og hún hljóti skjóta afgreiðslu, þá verði þjónustan skilgreind, sett markmið um hana og tekin ákvörðun um fjármagnið sem standa á undir þessari þjónustu.

Reynslan hefur sýnt að það er hægt að ná góðum árangri með krökkum þegar umhyggja og stuðningur skóla er fyrir hendi, hvort sem krakkarnir eiga við sjúkdóma að stríða og þurfa stuðning þess vegna eða eru heilbrigð og þurfa stuðning vegna þroskaverkefna sem þau standa frammi fyrir. Við vitum að krakkar eru mismunandi undir það búin að fara í framhaldsskóla og takast á við þroskaverkefni sín.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur að mikilvægt sé að það sé sérstök miðstöð innan skóla sem sinni heilsufarsvandamálum krakka. Krakkar eiga ekki að þurfa að setja sig í stellingar til að leita sér aðstoðar. Þeir eiga að geta gengið inn um einar dyr til heilbrigðisstarfsmanns sem þeir geta fengið stuðning hjá, hvort sem vandinn varðar kynlíf og barneignir, hvort sem vandinn er sértækur, t.d. að ungar stúlkur þurfi að ná í neyðargetnaðarvörn vegna ógætilegrar hegðunar tveimur dögum fyrr, eða til að leita stuðnings vegna hugsanlegs þunglyndis eða kvíða.

Það vakti t.d. athygli mína þegar ég skoðaði úttekt skólahjúkrunarfræðinga í Fjölbrautaskólanum í Ármúla að helsta ástæða fyrir því að krakkar leita til skólahjúkrunarfræðinga í viðtal er vegna kvíða og þunglyndis. Þetta snertir líka hið háa brottfall í skólum. Það er alveg ljóst að brottfall í skólum er vegna vanlíðunar nema. Það er hægt að vinna gegn þessu brottfalli og þeim aðstæðum sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir lýsti, þ.e. að krakkar sem falla úr skóla eiga í meiri hættu að lenda í óreglu. Með góðri skólaheilsugæslu, góðum stuðningi, er hægt að koma í veg fyrir þetta, minnka brottfallið.

Í grg. með þáltill. er sérstaklega fjallað um geðheilsu og sjálfsvíg. Mig langaði aðeins að grípa þar niður vegna þess að þar eru upplýsingar sem valda manni áhyggjum. Þar er sagt frá nýrri kandídatsritgerð í lyfjafræði um algengi þunglyndis meðal ungs fólks á aldrinum 15--25 ára sem unnin er af Tinnu Traustadóttur lyfjafræðingi. Þar kom fram að algengi þunglyndis og kvíðaröskunar hjá þessum aldurshópi er tæplega 40%. Með frekari nálgun var fundið út að 17,2% ungs fólks þjáist af þunglyndi og 4% þeirra notuðu þunglyndislyf á árinu 1999. Rannsóknin benti einnig til þess að samband væri á milli þunglyndis og áfengis- og vímuefnaneyslu. Samkvæmt niðurstöðum hennar hafði helmingur þátttakenda neytt ólöglegra vímuefna og 17% --- 17% ungs fólks á Íslandi --- hneigðist til þess að misnota áfengi.

Í því sambandi vil ég benda á að rannsóknir hafa sýnt fram á að krakkar sem neyta áfengis, öllu heldur íslenskir krakkar sem neyta áfengis, eru líklegri til að lenda í vandræðum en aðrir krakkar á Norðurlöndum. Það er t.d. staðreynd að 15% ungmenna í 10. bekk grunnskóla hafa orðið fyrir óæskilegri kynlífsreynslu vegna eigin áfengisneyslu, 16% hafa lent í slagsmálum, 14% hafa orðið fyrir meiðslum og 9% hafa verið rænd vegna eigin áfengisneyslu. Ef hægt er að koma í veg fyrir eitthvað af þessu með skipulagðri heilsugæslu, náttúrlega í grunnskólum og eins og hér er lagt til, í framhaldsskólum, þá getum við fagnað því.

Einnig kemur fram í grg. með þáltill. að sjálfsvíg eru mjög algeng hér á landi. Þetta er vandamál hér á landi, sérstaklega sjálfsvíg ungra karla. Það kemur fram í þeirri rannsókn sem ég nefndi áðan, sem Tinna Traustadóttir gerði, að af þeim sem tóku þátt höfðu 5,4% reynt að fyrirfara sér. Það er mjög alvarlegt.

Annað atriði varðandi skólaheilsugæslu sem ég held að gæti leitt til góðs. Fyrir utan allt það sem ég hef nefnt hér á undan þá tel ég að skólaheilsugæsla í framhaldsskólum geti skapað betri tengsl á milli skóla og heimilis. Mér hefur oft fundist að þegar krakkar fara í framhaldsskóla þá sé viðhorf þjóðfélagsins þannig að þessir krakkar séu orðnir svo fullorðnir að þeir geti spjarað sig, það þurfi ekki að vera nein tengsl á milli heimilis og framhaldsskóla, þess skóla sem þeir eru að sækja. Ég held að skólaheilsugæslan geti þarna byggt ákveðna brú, skapað tengsl sem verði krökkum til góðs, sama í hvaða aðstæðum krakkarnir lenda.

[17:45]

Að lokum langaði mig aðeins að ræða það sem hv. þm. Hjálmar Árnason nefndi. Það var varðandi vinnuvernd. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að vinnuvernd skiptir verulegu máli í starfsnámi og það er mjög mikilvægt að grundvallaratriði vinnuverndar séu hluti af námskrá nemenda alveg sama í hvaða námi þeir eru. Hún er hluti af námskrá nemenda sem eru t.d. í framhaldsskólum og að læra ýmsar greinar innan heilbrigðisvísinda, t.d. þeirra sem eru að læra til sjúkraliða. Þetta ætti að vera hluti af námsefni í viðkomandi grein því að við vitum að stoðvandamál eru eitt algengasta vandamál sem við glímum hérna við og er vandamál sem kannski hefur alls ekki fengið nægilega mikla athygli en er í rauninni einn af stóru þáttunum þegar fólk stendur frammi fyrir því að vera óvinnufært.

Ég vil þakka fyrir þær góðu undirtektir sem till. til þál. um heilsuvernd í framhaldsskólum hefur fengið og vonast til þess að hún fái afgreiðslu fljótlega í gegnum nefnd.