Sokkin skip og önnur mengunarhætta í sjó umhverfis landið

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:51:35 (1452)

2000-11-08 14:51:35# 126. lþ. 21.8 fundur 185. mál: #A sokkin skip og önnur mengunarhætta í sjó umhverfis landið# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Af þeim virðist mér eðlilega unnið að upplýsingasöfnun og skráningu mengunaróhappa sem verða og orðið hafa síðustu árin. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að einhvers konar yfirferð þar sem skoðað verði hvort alvarleg mengunarhætta geti verið frá skipum sem hafa sokkið við ströndina í gegnum árin sé nauðsynleg.

Eins og hæstv. ráðherra sagði eru eitthvað á annað þúsund skipsflaka sem menn vita að liggja á víð og dreif í kringum landið, skip sem hafa sokkið á síðustu áratugum. Vitað er um staðsetningu ýmissa þessara flaka. Menn vita líka hvað var um borð. Menn vita t.d. að þegar flutningaskipið Haukur sökk á Borgarfirði þá var það fullt af áburði. Ég veit ekki hvort hætta stafar af áburði eins og var í því skipi. Ég geri ráð fyrir því að nefndin hafi farið yfir það mál. Ég býst við því að upplýsingar séu til um mörg af þeim skipum sem hafa sokkið og hugsanlega líka um farm þeirra.

Ég tel ástæðu til að fara nánar yfir þessi mál. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún telji fullnægjandi að koma þeim málum í gott horf sem snúa að mengun sem verða kann á næstunni en aðhafast ekki varðandi aðra mengunarhættu sem hugsanlega kann að verða vegna skipa sem farist hafa á undanförnum árum. Getum við látið aðgerðir miðast eingöngu við þau skip sem liggja í fjörum en ekki þau sem liggja sokkin í kringum landið?