Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 14:48:36 (1696)

2000-11-14 14:48:36# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[14:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. eins og aðrir ræðumenn hér fyrir skýrsluna og ræðu hans. Ég fagna því að við eigum þess kost núorðið að ræða utanríkismál í skipulagðri umræðu, að lágmarki tvisvar á þingi sem ég tel vera gott verklag sem hefur fest í sessi og þróast.

Ég hlýt fyrst að gera ákveðnar athugasemdir við þá heimssýn eða það mat á stöðu mála sem hæstv. utanrrh. dregur upp í upphafsorðum ræðu sinnar. Þar tel ég vera um alhæfingar að ræða sem ekki séu innstæður fyrir, því miður gæti ég sagt, vegna þess að þar fullyrðir hæstv. utanrrh. að alger samstaða ríki um megináherslur á sviði utanríkismála. Hann leggur þar hluti að jöfnu sem ég tel ekki réttlætanlegt að gera. Hæstv. utanrrh. fórust svo orð, með leyfi forseta:

,,Stöðugleiki og samstaða um grundvallaratriði utanríkismála einkennir íslenskt samfélag. Mikil eining ríkir um þátttöku okkar í norrænu samstarfi,`` --- það helst ég að flestir taki undir, en svo er bætt við --- ,,varnarsamstarfinu innan NATO og við Bandaríkin, Sameinuðu þjóðunum, ásamt fjölmörgum stofnunum á sviði málefna Evrópu og annarra alþjóðamála.``

Þetta, herra forseti, er framsetning sem ég tel að fái ekki staðist. Að leggja hér að jöfnu annars vegar þátttöku Íslendinga í norrænu samstarfi og þátttöku okkar í Sameinuðu þjóðunum og hins vegar veru erlends hers í landinu stenst ekki. Það liggur algerlega fyrir að um hið fyrra er sennilega meiri samstaða en flest annað, t.d. þátttöku Íslands í norrænu samstarfi. Um hitt er ágreiningur, verulegur ágreiningur og hefur lengi verið.

Menn hafa að vísu lengi reynt að láta sem þessi ágreiningur væri ekki til. Það eru til fjölmiðlar sem í 50 ár hafa í skrifum sínum og umfjöllun látið eins og eingöngu þeirra sjónarmið, þeirra sýn á hlutina, fyndist í landinu en veruleikinn er annar. Það hefur hann lengi verið og er enn.

Ég reyndi að rifja upp hversu langt væri síðan að skoðanakönnun hefði verið gerð, t.d. um viðhorf þjóðarinnar til veru erlends hers í landinu. Það kom mér reyndar mjög á óvart að það þarf að fara aftur á síðasta áratug til að finna ítarlega skoðanakönnun sem mætir öllum kröfum um aðferðafræði þar sem þetta var mælt. Það var gert í tvígang á 9. áratugnum, í fyrra skiptið 1983. Þá voru um 36% þeirra sem afstöðu tóku í skoðanakönnun andvíg veru erlends hers í landinu. Seinna á sama áratug, 1987 hygg ég að það hafi verið, var aftur gerð könnun, það var vel að merkja í tengslum við ákveðna pólitíska atburði sem hrærðu upp í þessum hlutum. Þá voru 45%, í stórri vandaðri skoðanakönnun gerð af viðurkenndum fagaðila á því sviði, þeirra sem afstöðu tóku andvíg veru erlends hers í landinu og vildu að hann færi. Síðan hefur því miður ekki verið gerð vönduð könnun í þessu efni. Það er mikið umhugsunarefni í ljósi þess að spurt er um eiginlega alla skapaða hluti í könnunum út og suður. Af einhverjum ástæðum hefur enginn sá aðili sem stendur fyrir gerð skoðanakannana eða enginn fjölmiðill sé ástæðu til að fá mælingu á þessu langvinna og mikla deilumáli með þjóðinni. Kannski hentar það þeim sem byggja málflutning sinn á því að ágreiningurinn sé ekki til, allir séu sammála, eins og hæstv. utanrrh. virðist gera. Hann er þar í skipsrúmi með Morgunblaðinu og fleiri slíkum aðilum.

Þó er spurt um ýmsa tengda þætti og jafnvel þetta mál, t.d. í skoðanakönnunum eða spurningaleikjum netmiðla nú um þessar mundir. Einn þeirra setti upp nákvæmlega þessar spurningar um afstöðu til veru erlends hers og aðildar að hernaðarbandalagi. Þeirri spurningu svöruðu um eða yfir þúsund manns eftir því sem ég best veit, á strik.is eða svo heitir netmiðillinn. Þar kom í ljós að 40% af þeirra sem svöruðu vildu herinn burt og að við gengjum úr Atlantshafsbandalaginu. 20% vildu herinn burt en vera áfram í Atlantshafsbandalaginu og 40% eða jafnstór hlutur aftur hinum megin, taldi bæði að herinn ætti að vera og Ísland ætti að vera í Atlantshafsbandalaginu. Að sjálfsögðu, herra forseti, ber að taka svona tölum með miklum fyrirvara. Hér er ekki um að ræða skoðanakönnun sem lýtur sömu lögmálum og uppfyllir sömu kröfur og aðrar slíkar. Ég er ekki að halda neinu slíku fram um þessar niðurstöður en vísbendingin, ef einhver er, úr henni er að um þetta sé ekki samstaða. Á málinu eru mjög skiptar skoðanir. Ég held að flestir mundu treysta sér til að ganga svo langt að túlka þetta sem vísbendingu um mjög skiptar skoðanir um þetta atriði með þjóðinni, úr því að þó þetta stór hópur tekur þátt í svara spurningum með þessum hætti. Þar af eru 40% þeirrar skoðunar að við ættum að láta erlendan her fara úr landinu og segja okkur úr hernaðarbandalagi og 20% í viðbót, samtals meiri hluti þeirra sem svöruðu þarna, vill a.m.k. að herinn fari, jafnvel þó að hluti þess hóps telji að við eigum áfram að vera í hernaðarbandalagi.

Ég nefni þetta hér, herra forseti, vegna þess að mér finnst það veikja málflutning manna, að láta eins og veruleikinn sé annar en hann sannanlega er og við blasir. Það er ljóst að með íslensku þjóðinni er það sjónarmið sem betur fer enn býsna útbreitt að við eigum að láta erlendan her fara úr landinu. Ég trúi því að í hjarta vel flestra Íslendinga blundi sú von að það gerist.

Ég sætti mig ekki við að Íslendingar hafi að þessu leyti minni metnað en þjóðir almennt hafa og yfirleitt. Alls staðar á byggðu bóli þar sem ég þekki til, býr það í hjarta manna að vilja ekki halda erlendan her í landi sínu hvernig sem viðkomandi þjóðir eru svo settar með ráðamenn þá og þá stundina. Það er hinn almenni þjóðarvilji mjög víða um heiminn. Þeir sem ekki viðurkenna þetta eða hafa ekki heyrt af þessu ættu að kynna sér umræður um þessi mál í langhersetnum löndum eins og Japan, Filippseyjum og mjög víða annars staðar. Þar eru alls staðar hreyfingar í gangi meðal almennra borgara um að koma erlendri hersetu af höndum sér.

Mér finnst, herra forseti, að hæstv. utanrrh. eigi ekki að setja hlutina fram með þessum hætti, gegn því sem fyrir liggur, að um þennan þátt utanríkismálanna er ekki samstaða heldur djúpstæður ágreiningur og hefur lengi verið. Svo verður að mínu mati svo lengi sem hér dvelur erlendur her. Eina leiðin til að sætta þjóðina er auðvitað að ljúka því ástandi eins og allir þóttust vera sammála um í eina tíð, að hér skyldi a.m.k. ekki vera erlendur her í landinu á friðartímum.

Um Evrópumálin, herra forseti, höfum við rætt svo mikið að ég ætla tímans vegna að stytta mjög umfjöllun mína. Það er athyglisvert að lesa texta hæstv. utanrrh. í þessari ræðu. Ég tel að þar kveði nokkuð við annan tón. Þar er ekki sami ákafinn í umfjöllun um nánari tengsl og nálgun við Evrópusambandið og ég hef stundum áður lesið í textum hæstv. utanrrh. Ég lét hvarfla að mér að þar ætti hlut t.d. niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í Danmörku eða sú staðreynd að nú er aðeins þriðjungur sænskra kjósenda hlynntur því að Svíar taki upp evruna samkvæmt könnunum. Sú staðreynd að norskir kratar hafa frestað því til 2005 að gera þriðju tilraunina til að koma Noregi inn í Evrópusambandið. Allt þetta gæti hafa slegið eitthvað á ákafa og væntingar þeirra sem hafa talið að þetta væri handan við hornið.

Það var að vísu gaman að heyra síðan orð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar sem setti á gömlu góðu plötuna um að nú yrði að fara að ræða Evrópumálin, eins og það nafn hefði ekki heyrt í þjóðmálaumræðu á Íslandi sl. 10 ár, og hæla hæstv. utanrrh. fyrir hans framtak. Svo komu þær fréttir að Samfylkingin hefði stofnað nefnd eins og Framsókn þó ekki séu nema 14 í nefnd Samfylkingarinnar. En úr því það er svo fullkominn samhljómur í umfjöllun miðjuflokkanna um þessi mál, má ég þá leyfa mér, herra forseti, að koma með þá tillögu að þeir sameini nefndirnar. Er það ekki einfaldara fyrir Framsfl. og Samfylkinguna að slá þessu saman í eina nefnd? Þar virðist sáralítið bera á milli hvort sem er. Hér koma þeir upp og hæla hver öðrum fyrr framgönguna í Evrópumálum, utanrrh. og talsmenn Samfylkingarinnar, og mér sýnist ekki muna öllu hvort þarna eru tvær nefndir starfandi. Það gæti verið verksparnaður fyrir þá að slá þessu saman í eina nefnd. Það eru 50 í annarri og 14 í hinni, það eru þá 64 og er orðin hin myndarlegasta nefnd. (JÁ: Ertu þá ekki að ráðstafa íhaldinu?) Við skulum sjá til með það, hv. frammíkallandi, hvernig aðrir sinna þessu.

Við höfum ekki talið að við þyrftum í sjálfu sér að leggjast undir feld eða stofna fjölmennar nefndir til að hafa meginafstöðu okkar í þessu máli á hreinu. Sem betur fer liggja allar þær upplýsingar í aðalatriðum fyrir sem þarf til að meta þessi mál. Við fylgjumst með þeim frá degi til dags og erum hvenær sem er boðin og búin til umræðna um þessa hluti en reynum að hafa stefnu okkar á hreinu engu að síður.

Það er reyndar margt athyglisvert sem um Evrópumálin er sagt. Ég tel það t.d. mjög áhugaverðar hugmyndir sem aðeins er ýjað að í ræðu hæstv. utanrrh., að huga þurfi að því hvernig EES/EFTA-ríkin gætu tengst þeim kjarna innan Evrópusambandsins sem samkvæmt hugmyndum þar um færu hraðar í samrunaferlinu en önnur lönd. Það er mjög merkilegt að jafnvel þar er gefinn upp boltinn um nánari tengsl Íslands við þetta Evrópusamrunaferli, væntanlega á grundvelli hugmynda eins og fram komu í ræðu utanrrh. Þýskalands, Joschka Fischer, hinni frægu Humbolt-háskólaræðu um tveggja hraða lausn o.s.frv. Það bendir til þess að menn langi býsna mikið til þess að sitja alveg innst við borðið.

Þarna er líka fjallað um breytingarnar á Evrópusambandinu ef af stækkun verður og ekki teikna þær til sérstaklega aðlaðandi aðkomu fyrir smáríki, verð ég að segja, herra forseti, þar sem þróunin er öll í átt til aukinnar miðstýringar sem almennt hefur verið talin óhagstæð frá sjónarhóli smáríkja, valddreifingar og meira lýðræðis um ákvarðanatöku.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson tók upp atriði sem ég gerði að umtalsefni fyrir nokkrum vikum, þ.e. spurninguna um Evrópustefnunefnd og hvort tímabært væri að koma henni á fót á nýjan leik. Þá komu lítil svör frá hæstv. utanrrh. og sömuleiðis í dag. Ég tel að það sé gott að halda þeirri hugmynd vakandi og menn eigi skoða hvort ekki eigi á einhverjum tímapunkti að setja sérstaka nefnd í að skoða þessi mál, m.a. til að fullnægja óskum þeirra sem aldrei fá nóg af umræðum um þetta. Það er í sjálfu sér ágætt ef Alþingi kýs að verkaskipta hlutunum þannig.

Um Schengen-framkvæmdina segir utanrrh. í tveimur línum að hún gangi vel. Þá vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Tekur það líka til þeirra umræðna sem nú eru upphafnar á hinum Norðurlöndunum um möguleg vandræði norræna vegabréfasambandsins einmitt vegna Schengen? Eins og við þekkjum af fyrri umræðum um þessi mál var ein meginröksemd fyrir aðild Íslands og hinna Norðurlandaþjóðanna að Schengen að með því ætti að bjarga norræna vegabréfasambandinu. Þess vegna kom mörgum spánskt fyrir sjónir þegar umræða hófst um það í Svíþjóð og síðan Danmörku að kannski mundi einmitt þessi Schengen-aðild granda norræna vegabréfasambandinu vegna þess að krafist er passa, vegabréfa eða sérstakra Evrópupersónuskilríkja eftir að Schengen-samningurinn kemur til framkvæmda eigi menn að geta skráð sig inn á hótel, gist á tjaldstæðum o.s.frv. Það er gert ráð fyrir því að um verði að ræða einhvers konar Evrópusambandspersónuskilríki, einhverja ,,legitimation`` á grundvelli reglna Evrópusambandsins. Þá er náttúrlega eftir spurningin: Hvað með Ísland og Noreg? Er þá meiningin að Íslendingar og Norðmenn fari líka að ganga með sérstakan Evrópupassa upp á vasann? Hefur hæstv. utanrrh. handa okkur einhverjar upplýsingar um þetta atriði?

Það gætir nokkurs söknuðar í umfjöllun um Vestur-Evrópusambandið. Við þekkjum áhuga hæstv. utanrrh. á því að tryggja aðild Íslands að hernaðaruppbyggingu innan Evrópusambandsins. Hæstv. ráðherra hefur verið mjög órólegur yfir því undanfarna mánuði að Íslendingar kunni að eiga ónógan aðgang að því. Ég deili ekki þeim áhyggjum. Mér er nokk sama hvernig þessi væntanlegi Evrópuher er klæddur eða hvað hann étur. Ég tel það ekki sérstakt hagsmunamál Íslendinga að reyna að troða sér inn í framkvæmd þeirra mála.

Um varnarsamstarfið svokallaða við Bandaríkin er fjallað í 13 línum og öðruvísi mér áður brá. Einhvern tíma hefði verið eytt meira púðri á það. Ég get vel tekið undir spurningar hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um hvernig menn hugsi sér að vinna að þeim málum. Reyndar er athyglisvert að nú hafa hlutirnir snúist þannig við að Íslendingar vilja ekki ýfa málið upp eða minna á það væntanlega vegna þess að fyrir liggur áhugi Bandaríkjamanna á því að draga úr umsvifum sínum hér samanber skildaboð frúarinnar hjartahlýju, Madeleine Albright, sem kom hingað með þann boðskap að kaninn vildi draga úr umsvifum sínum. Þá hefur taflið snúist þannig og sjálfsagt reyndar fyrir nokkru síðan, að það eru Íslendingarnir sem sækja á um að fá að hafa hér sem mest hernaðarumsvif og er það heldur dapurlegt hlutskipti.

Um norrænt samstarf vil ég segja það eitt að ég geld varhug við því sem aðeins er ýjað að í umfjöllun á bls. 12 í ræðu utanrrh., að það eigi sérstaklega að skipuleggja eða hugsast út frá nánari tengslum Norðurlandaþjóðanna við Evrópusambandið. Ég tel það hættulegt vegna mikilvægis norræns samstarfs í krafti eigin ágætis að leggja hlutina þannig upp. Þó samstarfið verki að einhverju leyti sem samræmingarvettvangur fyrir okkur í því sambandi einnig eigum við sem sérstakir vörslumenn þess, Íslendingar og Norðmenn og aðrir, ekki að gera það að útgangsatriði þegar við erum að tala um framtíð norræns samstarfs. Við eigum að efla það vegna þess sjálfstæða gildis sem það hefur í krafti eigin ágætis en ekki að blanda þar saman tengslum Íslendinga, Norðmanna eða annarra norrænna þjóða við Evrópusamrunann.

Margt fleira, herra forseti, hefði verið fróðlegt að nefna en tíminn leyfir það ekki að þessu sinni.