Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 12:36:04 (1850)

2000-11-16 12:36:04# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[12:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að taka virðulegan forseta á orðinu og leiða í ljós það ágreiningsefni og álitaefni sem hann ræddi hér og ég einnig fyrr í umræðunni. Það er að sönnu hárrétt að þó að samstarf í forsn. sé prýðilegt eru uppi álitamál milli mín sem 1. varaforseta þingsins og forseta þingsins. Það lýtur einmitt að upplýsingagjöf um fyrirtæki í meirihlutaeign ríkisins.

Virðulegum forseta var tíðrætt um hlutafélagalög í þessu sambandi og taldi þau augljóslega ofar öllum öðrum. Ég vil hins vegar vekja á því athygli að í landinu gilda fleiri lög sem lúta að þessu sama viðfangsefni, nefnilega lög um Ríkisendurskoðun sjálfa sem ég fór yfir. Það eru líka þingsköp sem gilda um sama álitaefni. Einnig má nefna til sögunnar upplýsingalög, upplýsingalög sem lúta sérstaklega að rétti almennings, þó að ég vilji taka það sérstaklega fram að ég leggi þau ekki að jöfnu og ákvæði þingskapalaga og stjórnarskrárinnar raunverulega um hlutverk okkar alþingismanna og skyldu til þess að hafa eftirlit með starfsemi framkvæmdarvaldsins. Þar verðum við að gera glöggan greinarmun á.

Það er hárrétt þegar menn segja hér að með lögum skuli land byggja og það eigum við einmitt að gera. En það er einfaldlega þannig hvað þetta atriði varðar að vægast sagt er um réttaróvissu að ræða því að lög stangast á. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. forseti skuli hafa tekið undir mikilvægi þess að taka af öll tvímæli í þessum efnum og af þeim ástæðum hef ég flutt frumvörp sem gera það skylt og klárt að þingmönnum beri að fá upplýsingar sem þeir biðja um úr fyrirtækjum sem ríkið á að meiru en helmingi. Það er eðlilegt og það er sjálfsagt, það er ekki bara réttur okkar, það er skylda okkar að sinna þessu eftirlitshlutverki.