Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 12:44:25 (1855)

2000-11-16 12:44:25# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[12:44]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Ég tek undir hvert einasta orð sem hæstv. forseti sagði núna áðan. En ég vil ítreka það sem ég sagði að mér finnst að forsetinn, sem er yfir okkur öllum í þessari virðulegu samkomu, hafi ákveðnum skyldum að gegna. Þegar við erum að kvarta yfir aðstöðuleysi okkar þingmanna til að rækja eftirlitshlutverk okkar og að framkvæmdarvaldið sé sí og æ að gera okkur erfiðara fyrir að gegna því hlutverki finnst mér að hæstv. forseti eigi að vera í hlutverki forseta þingsins og taka undir með okkur að það þurfi að breyta lögum til að styrkja rétt alþingismanna til þess að kalla eftir upplýsingum.

[12:45]

Ég minni á að Páll Hreinsson, sem er höfundur þeirrar skýrslu sem ég nefndi um starfsskilyrði stjórnvalda, segir að upplýsingar þingmanna ráðist ekki af upplýsingalögum heldur byggist þær á sjálfstæðri heimild sem er að finna í stjórnarskránni. Ég ítreka að mér finnst ekki boðlegt að bera fyrir sig þau rök sem hæstv. forseti gerði í máli sínu og mér finnst heldur ekki boðlegt hvernig þingið hefur undanfarin ár farið með þingmál sem hafa haft það að markmiði að styrkja stöðu þingsins til að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þar nefni ég bæði frv. hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar og frv. sem ég hef beitt mér fyrir um rannsóknarnefndir þingsins sem taki að eigin frumkvæði upp mál sem lúta að ýmsu sem varða almannaheill. Þau fást vart rædd í þingnefndum. Mér finnst að forsetinn eigi þegar slíkar umræður eiga sér stað hérna, eins og hann nefndi reyndar í sínu máli áðan, að hafa frumkvæði að því að bæta stöðu þingmanna til að gegna hlutverki sínu og fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar sem mér heyrðist að hæstv. forseti ætlaði að beita sér fyrir í forsn. Vonum við að það vísi eitthvað í áttina til þess sem við erum að kalla eftir.