Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:14:29 (1878)

2000-11-16 15:14:29# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég beindi í máli mínu tveim fyrirspurnum til hæstv. forseta Alþingis. Í fyrsta lagi um skoðun hans á því hvort hann teldi nauðsynlegt að stofna til embættis umboðsmanns skattgreiðenda með líkum hætti og forsrh. hefur ámálgað fyrir nokkrum missirum og eins hvort hann teldi ástæðu til þess að stofna til lagaráðs eins og fram kemur í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda.

[15:15]

Hæstv. forseti svaraði nú, herra forseti, hvorugri spurningunni beint. Ég skil það svo að forseti Alþingis sé því fremur hlynntur að umboðsmaður Alþingis hafi með höndum umkvartanir sem íbúarnir telja sig þurfa að bera upp vegna samskipta við skattyfirvöld og því ekki sammála því sem forsrh. hefur sett fram, um að ástæða sé til þess að stofna til embættis umboðsmanns skattgreiðenda. Ég held að við eigum einmitt að stefna að því að þannig sé búið að umboðsmanni Alþingis að hann geti með skilvirkum og góðum hætti tekið til meðferðar umkvartanir sem snúa að skattyfirvöldum.

Hitt fannst mér skrýtnara sem hæstv. forseti setti fram þegar hann bar saman stjórnsýsluna hér og í Danmörku. Mér fannst hann túlka það svo að þar sem færri stjórnsýslukærur væru hjá Dönum en hér á landi þá væri það merki um betri stjórnsýslu, af því það væru fleiri stjórnsýslukærur. Ég hefði haldið að það væri alveg öfugt og sýndi frekar að hjá okkur sé meiri losarabragur í stjórnsýslu, í lagasetningu og reglugerðum, fyrst hér eru fleiri stjórnsýslukærur en í Danmörku. Mér fannst hæstv. forseti, með allri virðingu fyrir honum, setja málið nokkuð á hvolf með því að setja slíka túlkun fram á stjórnsýslunni.