Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:21:21 (1882)

2000-11-16 15:21:21# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Kjarninn í máli mínu áðan var sá að til að þau markmið náist sem að var stefnt með umboðsmanni Alþingis og stofnsetningu þess embættis, verði stjórnvöld að fara að þeim álitum sem frá umboðsmanni koma vegna þess að umboðsmaður hefur ekkert vald til að fylgja álitum sínum eftir. Það er fyrst og fremst orðspor hans sem hefur verið byggt upp og er mjög jákvætt og þau álit sem hann lætur frá sér sem njóta virðingar. Þau gera það ef stjórnvöld fylgja þeim niðurstöðum. Það var kjarni ræðu minnar og þess vegna lagði ég þá spurningu fyrir núv. hæstv. forseta Alþingis, sem var þáv. hæstv. samgrh. og stjórnaði þá því ráðuneyti sem umrædd atriði lúta að: Hvers vegna fór þáv. hæstv. samgrh. ekki að þessu áliti?

Hæstv. forseti, þáv. samgrh., fór yfir málið og færði rök fyrir því að rétt hefði verið að ljúka málinu líkt og hann gerði. Ef ég skildi hæstv. forseta rétt þá mat hann það svo að þau lög sem Alþingi setti hefðu ekki verið í samræmi við þá hugsun sem samgrn. lagði af stað með þegar frv. var samið. Ég skildi hæstv. forseta þannig að nú yrði látið á það reyna hvort þau lög sem samþykkt voru stæðust fyrir dómstólum eða hvort sú hugsun sem hæstv. samgrh. lagði upp með á sínum tíma gengi framar. Ég bókaði hjá mér ræðu hæstv. forseta. Hún var eitthvað á þá leið að Alþingi hafi sett lög sem ekki væru í samræmi við hugsun ráðuneytisins. Það hafi verið niðurstaðan. Það sagði hæstv. forseti áðan.

Kjarninn er hins vegar að mér skilst að mjög rík rök þurfi til að hafna niðurstöðu umboðsmanns Alþingis.