Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 14:53:03 (3047)

2000-12-08 14:53:03# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 kemur nú til lokaafgreiðslu við 3. umr. Vísað er til nál. 2. minni hluta við 2. umr. frv. og enn fremur er vísað til álits minni hluta efh.- og viðskn. varðandi tekjuhlið frv. og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs á næsta ári sem fylgir frhnál. minni hlutans.

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs á næsta ári verði 253 milljarðar kr. eða tæpum 13 milljörðum hærri en frv. gerði ráð fyrir í haust. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 219 milljarðar kr. og tekjuafgangur ríkissjóðs er áætlaður um 34 milljarðar kr.

Ég vil, herra forseti, fyrst víkja að vinnubrögðum í fjárlagagerðinni og að þeim breytingum sem ég tel að þar væri æskilegt að gera.

Ríkisstjórnin leggur fram frv. til fjárlaga í upphafi þings. Að því búnu fer það til fjárln. til frekari vinnu en sú hefð hefur skapast að við 2. umr. fjárlagafrv. eru lagðar fram meginbreytingar þingsins á gjaldahlið frv. 2. umr. hefur þó í auknum mæli snúist um efnahagshorfur og stefnu í ríkisfjármálum þrátt fyrir að endurskoðuð þjóðhagsspá og tekjuáætlun fyrir næsta ár liggi ekki fyrir. Við 3. umr. fjárlagafrv. er lögð fram endurskoðuð tekjuáætlun fyrir næsta ár og jafnframt þær efnahagsforsendur sem ríkisfjármálin byggjast á á næsta ári. Ítarleg umræða fer fram innan fjárln. um sundurliðaða gjaldahlið frv. og fjölmargir aðilar koma fyrir nefndina og skýra einstaka útgjaldaliði.

Tekjuhlið frv. sem er þó hin hlið fjárlagafrv. fær aftur á móti afar litla umfjöllun fjárln. Má nefna í því sambandi að endurskoðuð tekjuáætlun var kynnt í nefndinni rétt um það leyti sem hún afgreiddi eða gert var ráð fyrir að hún afgreiddi frv. frá sér. Þá kom fram tillaga ríkisstjórnarinnar um stórfellda sölu á ríkiseignum á næsta ári og þar með talið hluta í Landssímanum. Ekki fengust ræddar í nefndinni forsendur eða tilhögun sölunnar eins og gert hefur verið að umtalsefni í þessum umræðum.

Herra forseti. Ég tel að mun eðlilegra væri að við 2. umr. fjárlaga væri fjallað um tekjuáætlunina og efnahagsforsendur og stefnu í ríkisfjármálum. Við þá umræðu væri tekjuhlið frv. ákveðin. Við 3. umr. væru útgjöldin hins vegar endanlega ákveðin.

Það er að mínu mati, herra forseti, góður siður á vönduðum heimilum að telja fyrst í buddunni og síðan að ákveða útgjöldin og hvernig þeim skuli ráðstafað. Þannig ætti það einnig að vera hjá Alþingi gagnvart ríkisfjármálunum.

En víkjum að ríkisfjármálunum og stefnunni þar og því sem þar er fram undan. Fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2001 eru afgreidd við mikla óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Forsendur í þjóðhagsáætlun hafa undanfarið tekið stöðugum breytingum og hið sama gildir um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Þannig var viðskiptahalli þessa árs, ársins 2000, áætlaður 32 milljarðar kr. í þjóðhagsspá fyrir ári, en stefnir nú í að verða um 62 milljarðar kr. og ekki víst að öll kurl séu komin þar til grafar.

Við búum enn við svokallað góðæri á yfirborðinu því atvinna er næg þótt henni sé e.t.v. misskipt eftir landshlutum. Landsframleiðsla vex og fjárfesting er mikil. Samt kveður við holan hljóm. Ljóst er að við núverandi horfur í efnahagsmálum ber ríkisvaldinu skylda til þess að sýna aðhald í rekstri og koma í veg fyrir þenslu. Það er að nokkru leyti gert í þessum fjárlögum, en að vísu dálítið seint því áhrif slíkra aðgerða taka nokkurn tíma að koma fram.

Mikil óvarkárni einkenndi fjárlög á árinu 1998 í aðdraganda síðustu kosninga. Þau mistök, ásamt ábyrgðarleysi í einkavæðingu, svo sem ríkisbankanna, varð til þess að verðbólga rauk upp og hefur verið 4--6% síðan.

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að aðhaldið komi fram á réttum stöðum og framlög til þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu séu ekki skert. Þeir hafa hins vegar fengið næsta lítið í sinn hlut af góðærinu, en þurfa að bera æ meiri byrðar, t.d. vegna aukins húsnæðiskostnaðar, lyfja- og lækniskostnaðar. Þar vill Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sjá aðrar áherslur. Grein Ólafs Ólafssonar, fyrrv. landlæknis, sem birt er sem fylgiskjal með þessu nál., sýnir hversu bág kjör margir ellilífeyrisþegar búa við, en samkvæmt því sem þar er haldið fram eru 7.390 manns sem hafa lægri mánaðartekjur en 58.500 kr. fyrir skatta.

Víkjum að vaxtastefnunni. Mikil oftrú hefur ríkt á mætti vaxtaaðgerða til þess að slá á eftirspurn. En vaxtahækkanir hafa einungis orðið til þess að fyrirtæki flytja sig á erlenda fjármagnsmarkaði og hafa bankarnir fengið rýmri fjárráð til þess að auka útlán til einstaklinga. Afleiðingin, a.m.k. til skemmri tíma, hefur verið aukin þensla.

Herra forseti. Hávaxtastefna ríkisstjórnarinnar hefur aftur á móti einnig leitt af sér gífurlegan viðskiptahalla sem er spáð að aukist enn frekar á næsta ári.

[15:00]

Að vissu leyti er mönnum vorkunn. Frelsið á fjármagnsmarkaði hér á landi er tiltölulega nýtt og lítil reynsla hefur fengist af því. Samt sem áður hefur ákveðin grunnhyggni einkennt gerðir manna. Svo virðist sem menn hafi tekið stöðugleikann sem sjálfsagðan hlut. Öllum mátti vera ljóst að mikil aukning peningamagns í umferð, sem lengst af var samfara vaxtahækkun Seðlabankans, hlyti að vera mjög þensluhvetjandi.

Herra forseti. Ef þetta ástand verður viðvarandi er fyrirséð að íslensk heimili beri ofurþungan fjármagnskostnað sem kann að reynast mörgum ofviða þegar fram í sækir. Enn fremur munu háir vextir sem við búum nú við koma afar illa við smærri fyrirtæki og hefta alla nýsköpun. Með öðrum orðum, herra forseti, grafa háir vextir undan framtíð Íslendinga þegar til lengdar lætur.

En hvernig er þá brugðist við? Ríkisstjórnin virðist hafa tekið fjármagnsinnstreymið sem sjálfsagðan hlut og lítið kapp var lagt á að greiða niður erlend lán ríkissjóðs á meðan peningarnir streymdu inn. Loksins þegar til átti að taka á næsta ári eru slíkar niðurgreiðslur ómögulegar. Áætlun stjórnarinnar frá í haust var sú að nota tekjuafganginn til þess að greiða niður erlendar skuldir. Það er hins vegar ekki hægt eins og nú kemur fram vegna þess hve gjaldeyrisstreymi til landsins er viðkvæmt. Í stað þess að greiða niður skuldir verður að grípa til þess að stórauka erlendar lántökur og skuldir erlendis. Þetta er mjög alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að ríkissjóður er nú í þeirri stöðu að þurfa að taka erlend lán til þess að viðhalda genginu.

Það var óvarlegt að rýmka erlendar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna í upphafi þessa árs. Meðal annars í kjölfar þess hefur gjaldeyrisútstreymið verið mikið vandamál. Það verkefni stjórnvalda að viðhalda stöðugleika hefur því orðið mun erfiðara en annars hefði þurft að vera og það að ófyrirsynju.

Herra forseti. Öllu verra er þó að eftir nær fullkomið andvaraleysi skiptir yfir í mikinn ótta um gengi krónunnar og fjármagnsjöfnuð landsins. Gengismálin hafa tekið yfir nær öll markmið í hagstjórn. Það sést greinilega af einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar. Hér er markmiðið ekki að hagræða eða bæta þjónustu eins og svo oft er haldið fram um einkavæðingu. Markmiðið virðist vera aðeins það eitt að fá aukinn gjaldeyri inn í landið með öllum tiltækum leiðum og þar með talið með sölu ríkisfyrirtækja.

Gengi krónunnar skiptir efnahagslífið og kjör fólks að sjálfsögðu miklu máli. Atvinnulífið er mjög skuldsett í erlendum gjaldmiðlum og þolir illa gengislækkun. Sama gildir um fjárhag heimilanna. En lægra gengi hækkar vöruverð og höfuðstól verðtryggðra lána. Sú staða sem þjóðarbúið stendur nú frammi fyrir kom ekki til af sjálfu sér. Sú staða er afleiðing þeirra hagstjórnarákvarðana sem ríkisstjórnin hefur tekið á síðustu árum.

Herra forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lýsir miklum áhyggjum af gangi mála. Ef þetta ástand varir miklu lengur er hætta á því að útflutningsgeta þjóðarbúsins skaðist þegar til lengri tíma er litið. Jafnvægi í efnahagsmálum innan lands og aukinn útflutningur er eina varanlega lausnin á viðskiptahallanum. Hins vegar skal viðurkennt að einkavæðing getur skapað gjaldeyristekjur, en aðeins einu sinni. Þegar eignirnar hafa verið seldar án þess að taka á undirliggjandi vanda er allt sem áður var.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á að ríkisfjármálum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna aukins tekjumunar í þjóðfélaginu og kerfisbundinnar mismununar á lífskjörum fólks. Allir þegnar þjóðfélagsins skulu eiga tryggð mannsæmandi samfélagslaun. Öll mismunun í lífskjörum leiðir til hættulegrar spennu og þenslu í þjóðfélaginu, sem og röskunar fjölskyldubanda, byggðar og atvinnulífs. Gegn þessu ójafnvægi verður að berjast með öllum tiltækum ráðum.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggja til að tekjum ríkisins verði í auknum mæli ráðstafað til menntunar og rannsókna og framlög til umhverfismála verði aukin og tekið verði upp grænt bókhald þegar meta skal arðsemi í rekstri og framkvæmdum.

Herra forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs flytja nokkrar brtt. við 3. umr. fjárlaga sem ég vil nú leyfa mér að víkja að.

Herra forseti. Er hæstv. landbrh. í salnum?

(Forseti (GÁS): Landbrh. hæstv. er í húsinu og skal ég gera ráðstafanir til að fá hann til fundar.)

Í 7. gr. frv. til fjárlaga þar sem fjallað er um sölu eigna er í lið 8.20 kveðið svo á um, herra forseti, að veita heimild að gera bráðabirgðasamkomulag við Vesturbyggð um fjárhagslega fyrirgreiðslu í tengslum við fyrirhuguð kaup ríkisins á eignarhluta sveitarfélagsins í Orkubúi Vestfjarða. Ekki hefur farið fram hjá neinum í umræðunni undanfarið, bæði á Alþingi og á Vestfjörðum og í þjóðfélaginu öllu, hin erfiða staða sem mörg sveitarfélög hafa lent í vegna brottflutnings fólks og lágra tekna, bæði íbúanna og sveitarfélaganna. Þetta hefur ekki síst komið niður á einstökum stöðum á Vestfjörðum.

Herra forseti. Að mínu mati er alveg ótækt að gengið sé að einstökum sveitarfélögum í því markmiði að leysa bráðan fjárhagslegan vanda þeirra með þeim hætti að krefja þau jafnframt um að láta af hendi bestu eignir sínar, eignir upp í skuldir sem hafa orðið til, ekki síst vegna stefnu stjórnvalda. Ég vil líka vekja athygli á því að félagsíbúðakerfið um allt land var hluti af húsnæðisstefnu ríkisins á þeim tíma og það var til komið sem framkvæmd á þeirri stefnu í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins við opinbera lánasjóði og sveitarfélögin. Þegar slær í baksegl, m.a. vegna stjórnvaldsaðgerða og byggðastefnu stjórnvalda, er afar ósanngjarnt að ríkið og þeir aðrir aðilar sem áttu hlut að máli við uppbyggingu þessa kerfis, sem var í mörgum tilvikum mjög mikilvægt á sínum tíma og skilar enn góðu til margra sveitarfélaga, skuli hlaupast frá og velta vandanum og láta sveitarfélögin ein sitja uppi með vandann.

Herra forseti. Þess vegna hef ég ásamt öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagt til að liður 8.20, verði felldur brott en í stað þess komi nýr liður þar sem verður heimilað að semja með þátttöku félmrh. við sveitarfélög í fjárhagserfiðleikum um fjárhagslega endurskipulagningu þeirra með þátttöku ríkisins.

Vandi sveitarfélaganna á Vestfjörðum og þess sveitarfélags sem þarna er minnst á er alvarlegur en hann er ekki einstæður fyrir Vestfirði. Þetta er sameiginlegur vandi og sameiginleg ábyrgð um allt land. Enginn veit hvaða sveitarfélag stendur næst frammi fyrir viðlíka vanda. Þess vegna ber ríkisvaldinu að ganga fram af ábyrgð gagnvart öllum sveitarfélögum sem eru í þessari stöðu en ekki taka þau upp eitt og eitt.

Herra forseti. Ég vil þá víkja aftur að öðrum sölum sem eru þarna lagðar til. --- Ég met það að hæstv. landbrh. er kominn í þingsalinn.

Gerðar eru tillögur um sölu allmargra jarða. Við höfum fengið dreift í fjárln. vinnureglum eða ákveðinni stefnu um hvernig landbrn. hyggst vinna við ákvörðun á sölu jarða. Þar er m.a. kveðið á um jarðir sem skipta máli bæði hvað náttúruverðmæti, náttúrufegurð eða annað sem lýtur að almannaheill og útivist, hafa mikla þýðingu fyrir almenning í landinu, að vandlega sé hugað að því áður en þær eru seldar. Ég vil því spyrja, herra forseti: Hefur farið fram sú úttekt og skoðun sem hæstv. landbrh. hefur gert grein fyrir í stefnumörkun sinni, hefur slík úttekt og skoðun og mat varðandi jarðeignir sem hér eru boðnar til sölu farið fram? Ég tel afar mikilvægt að vandað sé til allrar sölu á eignum ríkisins, hvort sem það eru jarðir, Landssíminn eða annað, það eigi að gera að vandlega íhuguðu máli.

Það er nú svo að þegar jarðeignir eru komnar á sölu og auglýstar til sölu gilda um þær sérstakar reglur. Þá er ekki svo gott að hverfa til baka, þá er erfitt að komast hjá því að selja þær hæstbjóðanda, hver svo sem önnur skilyrði og óskir gætu verið fyrir hendi. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra um hvers konar úttekt liggi að baki þeim jarðeignum sem hér eru boðnar til sölu.

Þá vil ég og víkja að einstökum nokkrum jörðum ef hæstv. ráðherra gæti gert grein fyrir hver er ástæðan til þess að þær séu boðnar til sölu.

Ég vil þá fyrst nefna jörðina Reyki í Hjaltadal. Jörðin Reykir er innsti bær í Hjaltadal í Skagafjarðarsýslu. Þetta er jörð sem er m.a. með mikinn jarðhita, óvíst hversu mikinn, en þarna er virkjaður jarðhiti og hitaveita Hjaltadals sem hitar m.a. upp fiskeldið á Hólum og íbúðarhús á Hólum og þarna í dalnum. Í þessu landi eru mörg önnur hlunnindi sem ýta undir mikilvægi þess að þessi eign fari ekki í almenna sölu. Hagsmuni ríkisins og ríkiseignanna á þessu svæði tel ég vera miklu meiri en svo að það eigi með gáleysi að setja jörð eins og Reyki í Hjaltadal í sölu. Ég er því afar andvígur og tel að með því sé verið að ganga þvert á hagsmuni, ekki aðeins íbúanna þarna heldur þeirra stofnana sem heyra m.a. undir og tengjast hæstv. landbrh. og ráðuneyti hans. Ég tel afar óviturlegt að setja þessa jörð í sölu.

[15:15]

Sömuleiðis vil ég víkja að jörðum í eigu Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum þar sem búið er að selja jörðina Reykjakot í Ölfusi. Ég get ekki séð hvað rekur á eftir að selja þá jörð. Garðyrkjuskólinn er vonandi að eflast í starfi og hver veit hvenær þær jarðir sem hann hefur undir nýtast og hvenær er þörf á þeim með beinum hætti til þess starfs sem þar er unnið, ásamt víðtækari notkun í þágu almennings.

Herra forseti. Ég ítreka að ég met það að hæstv. landbrh. er hér til staðar og getur þá gert betur grein fyrir því en sem fram kemur í fjárlagafrv. varðandi þessar jarðasölur.