Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 18:56:45 (3076)

2000-12-08 18:56:45# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[18:56]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það stendur eftir að hæstv. utanrrh. hefur sagt að hættumerki séu uppi í efnahagslífinu. Það stendur eftir að hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., sem er talsmaður Framsfl. í þessari umræðu, hefur talið það upp að hættumerki séu fólgin í viðskiptahallanum, í vöxtunum, í verðlagsmálum og varðandi gengið líka. En hins vegar kemur hæstv. forsrh. hér og segir að það sé allt í lagi. Hann er í reynd að segja að það sé ekkert að í efnahagsmálunum og hann er að segja að það séu engar breytingar sem komi fram í þessari þjóðhagsspá. Það er auðvitað tóm vitleysa, herra forseti. Þar kemur fram t.d. að viðskiptahallinn er enn að hækka og hann er líka að hækka þó að gamla uppgjörsaðferðin hefði verið notuð.

Það sem skiptir máli, herra forseti, er að bersýnilega er ágreiningur á milli Framsfl. og Sjálfstfl. varðandi það hvað er að gerast í efnahagsmálunum. Talsmenn Framsfl. hafa sagt ákaflega skýrt mörgum sinnum síðustu daga að hættumerki séu uppi en hæstv. forsrh. kemur og segir að það sé allt í fínu lagi, allt sé á góðu róli. Herra forseti. Það er ekki von til þess að fólk hafi traust á slíkri ríkisstjórn.