Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1206, 126. löggjafarþing 369. mál: eiturefni og hættuleg efni (yfirstjórn, gjaldtaka o.fl.).
Lög nr. 42 22. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Fegrunar- og snyrtiefni eru efni eða efnablöndur sem ætlaðar eru til notkunar á mannslíkamann, svo sem hörund, hár, neglur, varir, tennur eða slímhúð í munni. Fegrunar- og snyrtiefnum er einkum ætlað að hreinsa, breyta útliti, veita ilm, bæta líkamsþef eða vernda og halda líkamshlutum í góðu ástandi.
  3. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  4.      Markmið þessara laga er að eiturefni, hættuleg efni og fegrunar- og snyrtiefni séu notuð með gát og varúð þannig að hvorki hljótist af tjón á mönnum eða dýrum né matvæli eða umhverfi mengist af efnunum.


2. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 17. gr. A, sem orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um framleiðslu, innflutning, dreifingu, sölu, notkun, innihald, eftirlit og merkingu fegrunar- og snyrtiefna, hvort sem efnin flokkast sem eiturefni eða hættuleg efni eða ekki.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Yfirstjórn mála er varða eiturefni, hættuleg efni og fegrunar- og snyrtiefni er í höndum umhverfisráðherra.
  3. Á eftir 5. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Hollustuvernd ríkisins er heimilt að taka gjald fyrir vinnu við og útgáfu starfsleyfa til handa þeim sem starfa við garðaúðun í atvinnuskyni, starfsleyfa til handa meindýraeyðum og leyfisskírteina fyrir notendur varnarefna og eiturefna, viðurkenningu sótthreinsiefna og áritun innflutningsskjala.
         Hollustuvernd ríkisins er heimilt að taka gjald fyrir vinnu stofnunarinnar við skráningu, breytingu á skráningu, undanþágu frá skráningu, samhliðaskráningu og endurnýjun á skráningu varnarefna. Í skráningu varnarefna felst m.a. úttekt sérfræðinga á þörf fyrir notkun viðkomandi efna og á áhættu við notkun þeirra.
         Þá er Hollustuvernd ríkisins heimilt að krefja umsækjanda, sbr. 6. og 7. mgr., um endurgreiðslu alls kostnaðar sem fellur til vegna sérstakra rannsókna eða úttekta utanaðkomandi sérfræðinga, enda hafi verið haft samráð við umsækjanda um fyrirhugaðar rannsóknir eða úttektir og umsækjanda gefinn kostur á að draga umsókn sína til baka áður en til slíks kostnaðar er stofnað.
         Ráðherra getur, að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins, sett gjaldskrá vegna þeirrar starfsemi sem talin er upp í 6., 7. og 8. mgr. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Gjöld má innheimta með fjárnámi.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2001.