Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1481, 126. löggjafarþing 480. mál: stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða.
Lög nr. 40 30. maí 2001.

Lög um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða.


1. gr.

     Ríkisstjórninni er heimilt að standa að stofnun hlutafélags um rekstur Orkubús Vestfjarða, og að leggja til hlutafélagsins hlut ríkisins í sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða.
     Iðnaðarráðherra annast undirbúning að stofnun hlutafélagsins í samráði við fjármálaráðherra og sameigendur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða.

2. gr.

     Tilgangur Orkubús Vestfjarða hf. er að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum, eiga og reka orkuver og raforkustöðvar til raforkuframleiðslu, ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til raforkuflutnings og raforkudreifingar, jarðvarmavirki og fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegu dreifikerfi.
     Hlutafélagið stundar virkjunarrannsóknir og aðrar undirbúningsrannsóknir eftir því sem ákveðið er hverju sinni.
     Félaginu er einnig heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.
     Tilgangi og verkefnum félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum.

3. gr.

     Heimili og varnarþing Orkubús Vestfjarða hf. skulu vera á Ísafirði.

4. gr.

     Ákvæði 2. mgr. 14. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um innborgun hlutafjár og fjölda hluthafa í Orkubúi Vestfjarða hf. Ákvæði 6. og 7. gr. laga nr. 2/1995 eiga ekki við um greiðslu hlutafjár.

5. gr.

     Heildarfjárhæð hluta í Orkubúi Vestfjarða hf. skal nema 75% af bókfærðu eigin fé Orkubús Vestfjarða samkvæmt endurskoðuðum efnahagsreikningi 31. desember 2000.
     Sameignarfélagar í Orkubúi Vestfjarða skulu eignast hluti í hinu nýja hlutafélagi í samræmi við hlutdeild sína í sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða svo sem hún var 1. desember 2000.

6. gr.

     Orkubú Vestfjarða hf. heldur einkarétti þeim sem iðnaðarráðherra veitti sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða á grundvelli 6. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, sbr. þó 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
     Iðnaðarráðherra er heimilt, að fengnu áliti stjórnar Orkubús Vestfjarða hf., að ákveða að rekstur einstakra orkumannvirkja skuli vera undanþeginn einkarétti félagsins, svo sem bygging og rekstur mannvirkja til raforkudreifingar, jarðvarmaveitna og fjarvarmaveitna með kyndistöðvum innan þeirra sveitarfélaga sem þess óska.
     Þeir aðrir sem reka orkumannvirki á starfssvæði Orkubús Vestfjarða hf. við gildistöku laga þessara skulu halda þeim rétti sínum.

7. gr.

     Stjórn Orkubús Vestfjarða hf. skal skipuð fimm aðalmönnum og fimm til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
     Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra fara saman með eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf.

8. gr.

     Stjórn hlutafélagsins setur gjaldskrá um verð á seldri orku til notenda þar sem m.a. skal gætt almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár.
     Gjaldskrá öðlast eigi gildi fyrr en hún hefur verið staðfest af iðnaðarráðherra og birt í Stjórnartíðindum.

9. gr.

     Fastráðnir starfsmenn Orkubús Vestfjarða skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu hjá sameignarfélaginu, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér.
     Um biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum hjá Orkubúi Vestfjarða gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

10. gr.

     Stofna skal hlutafélagið Orkubú Vestfjarða á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 1. júní 2001.
     Allur kostnaður Orkubús Vestfjarða hf. af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku þess á rekstri Orkubús Vestfjarða greiðist af félaginu.

11. gr.

     Orkubú Vestfjarða hf. skal taka til starfa eigi síðar en 1. júlí 2001 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar sameignarfélagsins Orkubú Vestfjarða. Sameignarfélagið Orkubú Vestfjarða skal lagt niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórnar sameignarfélagsins.

12. gr.

     Orkubú Vestfjarða hf. er undanþegið tekjuskatti, útsvari, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis og sveitarfélaga.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, falla úr gildi þegar Orkubú Vestfjarða hf. tekur til starfa, sbr. ákvæði 11. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Sameignarfélagar Orkubús Vestfjarða bera áfram, gagnvart kröfuhöfum, einfalda óskipta ábyrgð á skuldbindingum Orkubús Vestfjarða sem stofnast hafa áður en hlutafélag er stofnað um rekstur þess. Innbyrðis skiptist þessi ábyrgð samkvæmt eignarhlutföllum l. desember 2000.

II.
     Á stofnfundi skal kjósa stjórn félagsins og skal hún starfa þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að félagið hefur tekið til starfa. Hlutverk stjórnar fram að yfirtöku er að undirbúa yfirtöku á rekstri Orkubús Vestfjarða en eftir það að stjórna félaginu í samræmi við ákvæði laga.

III.
     Rekstrarlega séð skal yfirtaka Orkubús Vestfjarða hf. á sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða miðuð við 1. janúar 2001.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 2001.