Opnun Þjóðminjasafnsins

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:49:41 (3626)

2002-01-28 15:49:41# 127. lþ. 61.1 fundur 275#B opnun Þjóðminjasafnsins# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Mín stefna í þessu máli hefur legið skýr fyrir frá upphafi. Það verður að sjálfsögðu að vinna að þessum framkvæmdum í samræmi við þær áætlanir sem liggja fyrir, það fjármagn sem er til reiðu og þannig að sýningin verði þannig úr garði gerð að það sé til sóma fyrir Þjóðminjasafnið að hún verði opnuð. Þess vegna hef ég aldrei nefnt eina einustu dagsetningu varðandi þetta mál. Ég hef ekki samið þann texta sem stendur á því spjaldi sem hv. þm. minntist á. Ég vona að það takist en það er ekki víst að það takist. Það hefur verið, og svo var síðast núna við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2002, gengið til þess að minnka framlög til Endurbótasjóðs menningarstofnana sem veitir fé í þessa framkvæmd og við verðum að standa að þessari framkvæmd eins og öðrum innan þeirra marka sem fjárlög heimila okkur. Það eru þau sem setja okkur þau mörk en ekki dagsetningar á spjöldum eða yfirlýsingar sem menn geta ekki staðið við, enda hef ég ekki gefið neinar slíkar yfirlýsingar.