Sala Landssímans

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 10:50:18 (3795)

2002-01-31 10:50:18# 127. lþ. 66.92 fundur 299#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 127. lþ.

[10:50]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hér ræðum við stærsta einkavæðingarverkefni ríkisins fyrr og síðar. Við ræðum það að málið virðist vera komið í uppnám, við ræðum það að annar tveggja ríkisstjórnarflokkanna hefur lýst því yfir að hann sé efins um að rétt sé að halda áfram. Hæstv. samgrh. kemur upp og segir eitthvað sem svo: Ég er undrandi á að þið viljið ræða þetta.

Annað dálítið merkilegt hefur einnig gerst í þessari umræðu og það eru yfirlýsingar hæstv. forsrh. Hann sagði hér í umræðu fyrir nokkrum dögum að það að einhver væri með 60% markaðshlutdeild á einhverju sviði væri stórhættulegt. Síminn er með 85% veltu á fjarskiptamarkaði. Ef við höldum áfram með orð hæstv. forsrh. er algerlega nauðsynlegt að skipta þessu fyrirtæki upp ef marka má fyrri yfirlýsingar hæstv. ráðherra. Þá held ég að það sé rétt, virðulegi forseti, að spóla til baka og skoða hugmyndir manna um að skipta þessu fyrirtæki upp áður en farið verður með það í sölu. Það liggur fyrir í þessu ferli öllu saman að viðsemjendurnir hafa lýst því yfir að uppsett verð Símans sé of hátt. Það liggur fyrir að seljendurnir vilja ekki fara neðar og það liggur því fyrir, virðulegi forseti, að það þarf að endurskoða þetta algjörlega. Ég held að hægt sé að taka undir þau orð hæstv. forsrh. að þegar aðstæður eru með þessum hætti sé rétt að skipta fyrirtækinu upp.