Málefni flugfélagsins Go-fly

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:36:14 (3819)

2002-01-31 13:36:14# 127. lþ. 67.94 fundur 298#B málefni flugfélagsins Go-fly# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að það eru slæm tíðindi að viðkomandi flugfélag hafi hætt að fljúga hingað. Ég hef farið þess á leit að gerður verði samanburður á flugvallargjöldum á nokkrum flugvöllum í Evrópu. Ráðgjafarfyrirtækið Deloitte & Touche hefur gert það. Og það kemur í ljós að Keflavík er í 5. sæti, 5. lægsta sæti af 12 flugvöllum í Evrópu. Það er tiltölulega ódýrt að fljúga inn á Keflavíkurflugvöll í þeim samanburði. Sé miðað við þotu af gerðinni Boeing 737-300 þá kostar það á vél 274.334 kr., en er ódýrast í París 156.144. Það verður líka að taka tillit til þess að af þessu er tæpur helmingur flugvallarskattur sem ekki rennur til Keflavíkurflugvallar, hann rennur til uppbyggingar flugvalla í landinu samkvæmt ákvörðun Alþingis. Ef sá skattur væri ekki fyrir hendi, og ég er ekki á nokkurn hátt að leggja til að verði lagður af því að hann er mikilvægur til uppbyggingar á öðrum flugvöllum, þá væri kostnaður á Keflavíkurflugvelli lægstur.

Lendingargjöld eru 46.794 kr., farþegagjöld 57.041 kr. og öryggisgjald 33.000, eða samtals 146.834 kr. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir. Það verður að taka fram að flugfélagið Go-fly hefur eftir því sem ég best veit aldrei leitað eftir neinum viðræðum við yfirvöld hér á landi um þessi mál. Það tilkynnti eins og kunnugt er að það hefði hætt við að fljúga hingað án þess að ræða það neitt frekar.

Um það atriði að ekki sé aðstaða til samkeppni á Keflavíkurflugvelli þá er það ekki rétt. Það er búnaður til þess. Hins vegar er það rétt að samningar hafa ekki tekist. Gjald fyrir þessa aðstöðu eru 5 dollarar á hvern farþega, hver svo sem á í hlut. Hins vegar á flugstöðin hugbúnaðarkerfi fyrir samkeppnisaðilana, en Flugleiðir eða fyrirtæki þeirra eiga sinn búnað. Það er talið að kostnaðurinn vegna þessa fyrir Flugleiðir séu 60--90 sent á hvern farþega en fyrirtækjunum hefur verið boðin þessi þjónusta fyrir einn dollar á farþega og samningar hafa ekki tekist.

Nú má vel vera að það geti verið eitthvað aðeins lægra en einn dollari. En það gengur náttúrlega ekki að flugstöðin útvegi þennan búnað og fjárfesti í honum, en ekki fyrir samkeppnisaðilann, og bjóði það fyrir ekki neitt. Þá væri aðilum í flugstöðinni mismunað og það er ekki heimilt.

Þetta eru staðreyndir málsins og flugfélaginu Go-fly eða einhverjum sem vilja vinna fyrir þá er í sjálfsvald sett að koma upp slíkri aðstöðu í flugstöðinni. Þeir töldu sér hagstæðara að skipta við Flugþjónustuna, sem er það fyrirtæki sem Flugleiðir nota. En þetta er allt saman opið.

Varðandi framhald þessa máls er að sjálfsögðu rétt að skoða allar hliðar þess. Hér er vissulega um slæm tíðindi að ræða. Það er mikilvægt fyrir flugvöllinn sem slíkan að hafa sem mesta umferð þar í gegn. Það eykur tekjur hans. Það er að sjálfsögðu mikið hagsmunamál fyrir íslenska ferðaþjónustu að sem mest umferð verði um þennan flugvöll þannig að sem flestir farþegar komi til landsins. En það er mikilvægt að staðreyndir málsins séu hafðar á borðinu og það liggi ljóst fyrir af hverju viðkomandi aðili hætti að fljúga hingað. Það er a.m.k. ekki vegna þess að Keflavíkurflugvöllur sé dýrasti flugvöllur í Evrópu. Staðreyndir í þessari úttekt segja allt annað. Á því ber að byggja, en ekki einhverjum sögusögnum.