Málefni flugfélagsins Go-fly

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:52:43 (3825)

2002-01-31 13:52:43# 127. lþ. 67.94 fundur 298#B málefni flugfélagsins Go-fly# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því sem hér kom fram áðan, að umræðan væri ekki tekin upp á réttum forsendum. Við þessa umræðu hefur komið fram að fyrirkomulagið sem er á þessum málum núna er dálítið sérstætt. Hér erum við í umræðu við hæstv. utanrrh. og erum að ræða við hann afleiðingar af tilteknu ástandi sem upp er komið um ferðamál.

Ég held að það væri miklu eðlilegra, virðulegi forseti, að við ræddum við samgrh. um viðhorf og stefnu stjórnvalda í rekstri alþjóðaflugvallar og hvernig flugvöllurinn á að vera í samkeppni á alþjóðamarkaði. Ég held að það sé það sem við þurfum að ræða um í fyrsta lagi og í öðru lagi hvernig við skipum síðan innri málefnum okkar á þessum flugvelli. Spurningin sem stendur eftir eftir þessa umræðu er einfaldlega: Er verið að koma í veg fyrir eðlilega samkeppni á þessum flugvelli eða ekki? Það er stóra spurningin sem við þurfum að takast á við.

Af þeim litlu gögnum sem hafa komið fram og þeim litlu upplýsingum sem komið hafa fram í þessari umræðu er dálítið erfitt að draga ályktanir. En eina rannsóknin sem hefur farið fram var vegna kæru sem rúllaði í gegnum Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð, sem komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki sem heitir Vallarvinir hafi ekki fengið þá aðstöðu sem þeim ber á grundvelli samkeppnislaga.

Það er í raun og veru það eina sem klárt er í þessu máli og dálítið sorglegt, af því að þessi mál skipta okkur miklu máli, að stjórnvöld séu nánast rassskellt, ef svo má að orði komast, vegna þess að þau eru staðin að því að hafa í þessum málum enga heildarstefnu. Ég held að í þessu tilviki sé skynsamlegt að ræða af mikilli alvöru að þessi málefni eigi að heyra undir samgrn. en ekki utanrrn. Ég held að utanrrn. hafi yfirdrifið nóg á sinni könnu.