Málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 14:22:47 (3839)

2002-01-31 14:22:47# 127. lþ. 67.92 fundur 296#B málefni Go-fly -- spurningar til samgönguráðherra# (um fundarstjórn), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er um gríðarlega stórt mál að ræða þannig að það er nú slæmt fyrir land og þjóð ef þetta fer í karp um form hér í þinginu. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. samgrh. fyrir að ljá máls á því að taka þetta mál til umræðu í breiðu samhengi. Það þarfnast þess. Ég tel að það sé fyrst og fremst út af því að auðvitað finnast aðrir vinklar eins og fram kom í umræðunni. Ég benti á að við erum með þrjá alþjóðaflugvelli, ekki bara í Keflavík heldur á Akureyri og Egilsstöðum líka. Ég tók eftir því að hv. þm. Tómas Ingi Olrich léði máls á því og taldi æskilegt að skoða þann möguleika í þessu ferðamannapólitíska samhengi. Ég mælist til þess að við leitum leiða til að koma að þessu máli og hafa möguleika á því að ræða það betur og ræða það frekar. Það er þá spurning hvort það yrði þáltill. um að fela samgrh. og samgrn. að hefja viðræður t.d. við þetta flugfélag og þá með möguleikann á því að taka flugið inn á Akureyri --- í þeirri breidd vil ég sjá þetta --- e.t.v. inn á Egilsstaði.

(Forseti (ÍGP): Má ég minna hv. þingmann á að dagskrárliðurinn er um fundarstjórn forseta en ekki efnisleg meðferð þessa máls.)

Ég skal halda mig við umræðuefnið fundarstjórn forseta virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri. Ég held að málið sé svo stórt að það þurfi að ræða það betur og finna form á því. Ég mun leita eftir samvinnu um slíkt þannig að hægt verði að ræða þessi mál í góðu tómi.