Átraskanir

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 15:27:08 (3852)

2002-01-31 15:27:08# 127. lþ. 67.11 fundur 337. mál: #A átraskanir# þál., Flm. KF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Flm. (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um átraskanir. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að sjá til þess að þverfagleg þjónusta þeirra sem hafa sérþekkingu á átröskunum verði sameinuð þannig að bjóða megi upp á sérhæfða meðferð fyrir átröskunarsjúklinga á öllum aldri.``

Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Ásta Möller, Jónína Bjartmarz, Stefanía Óskarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Tómas Ingi Olrich, Þuríður Backman, Ólafur Örn Haraldsson, Sverrir Hermannsson, Drífa Hjartardóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir.

Meginafbrigði átraskana eru lotugræðgi og lystarstol, svokölluð búlimía og anorexía, sem þau eru oft kölluð. Talið er að allt að 90% þeirra sem fá einkenni þessa sjúkdóms séu unglingsstúlkur eða ungar konur, jafnvel að í þessum heimshluta þjáist 1% stúlkna af lystarstoli og a.m.k. helmingi fleiri af lotugræðgi.

Engin heildstæð meðferðarstefna er til vegna átvandamála á Íslandi. Flutningsmenn þessarar tillögu telja nauðsynlegt að leiða saman þá fagaðila sem þekkingu hafa á meðferð við sjúklinga með lystarstol, lotugræðgi og offitu svo að heilbrigðisyfirvöld fái yfirsýn yfir umfang vandans og bæta megi þjónustu við þennan hóp sjúklinga. Nýlega hefur verið komið á fót vísi að þverfaglegu teymi á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi en í því eiga sæti sálfræðingur, hjúkrunarfræðingur, geðlæknir, geðhjúkrunarfræðingur, næringarráðgjafi og barna- og unglingageðlæknir.

Þessi hópur sem í greinargerðinni er nefndur vísir að þverfaglegu teymi hefur orðið nokkuð meira en vísir síðan þáltill. var fyrst samin sl. vor því að snemma á síðasta ári fór af stað átröskunarteymi á göngudeild geðdeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Ég fékk í hendurnar í dag ársskýrslu eða skýrslu um starfsemi þessa átröskunarteymis. Þar kemur fram lýsing á starfsemi hópsins fyrsta starfsárið. Þar segir í inngangi, með leyfi forseta:

[15:30]

,,Átraskanir eru meðal flóknustu og erfiðustu geðsjúkdóma. Þær læknast yfirleitt ekki af sjálfu sér og geta verið erfiðar að meðhöndla. Þær hafa ákveðna sérstöðu vegna þess að þær eru langvinnar í eðli sínu og sjúklingar upplifa oft mikla innri togstreitu gagnvart meðferð. Þá geta líkamlegir fylgikvillar sveltis verið lífshættulegir auk þess sem langvinnar átraskanir eru líklegri til að valda þunglyndi, sjálfseyðingarhvöt og sjálfsvígum.

Átraskanir byrja yfirleitt á unglingsárum og valda því oft truflun á andlegum og félagslegum þroska og einstaklingar geta lengi verið fjölskyldum sínum háðir. Dánartíðni einstaklinga með lystarstol, eða anorexíu, er meiri en tólf sinnum hærri en hjá öðrum ungum konum í þjóðfélaginu.

Góðar íslenskar rannsóknir eru ekki til á faraldsfræði átraskana en ekki er ástæða til að ætla að nýgengi hér sé öðruvísi en á Vesturlöndum. Þegar tekið er mið af erlendum rannsóknum má búast við rúmlega 20 nýjum tilfellum af lystarstoli árlega á Íslandi og um 40 tilfellum af lotugræðgi eða búlimíu. Að auki er fjöldi einstaklinga með aðrar átraskanir sem geta verið allt eins alvarlegar og þurft sérstaka meðferð. Talið er að allt að 1--1,5% ungra kvenna hafi alvarlega átröskun. Árlega má því búast við að 3--6 einstaklingar séu það veikir að nauðsyn sé á sólarhringsvistun á geðdeild hér á landi.

Mikilvægt er að greina og meðhöndla átraskanir snemma til að hindra langvinnan sjúkdómsgang. Á Íslandi hefur meðferð við átröskunum farið fram á einkastofum hjá sálfræðingum og geðlæknum, á heilsugæslu, legudeildum sjúkrahúsa og geðdeilda auk Reykjalundar og NLFÍ og fleiri staða. Víða erlendis eru reknar sérhæfðar meðferðarstofnanir með þverfaglegum meðferðarteymum. Hér á Íslandi hefur slíkt vantað og hefur engin heildstæð meðferðarstefna verið mörkuð. Af þessum sökum hafa nokkrir sjúklingar verið sendir erlendis í meðferð en það hefur vissa augljósa ókosti í för með sér bæði kostnaðarlega séð og fyrir utan tungumálaörðugleika er einstaklingurinn tekinn úr sínu félagslega samhengi og hætta er á að eftirmeðferð verði ómarkviss.

Undanfarið hefur verið talsverð fjölmiðlaumræða á Íslandi um þessa sjúkdóma og meðvitund um þá hefur aukist. Að sama skapi virðist eftirspurn eftir sérhæfðri þjónustu einnig hafa aukist.``

Þetta er úr inngangi nefndrar ársskýrslu.

Í nefndaráliti heilbrigðisnefndar Alþingis um heilbrigðisáætlun til ársins 2010 segir að offita og aðrar átraskanir færist í vöxt og telji nefndin mikilvægt að spornað verði við þeim með öllum ráðum. Aukin offita barna er sérstakt áhyggjuefni. Markmið 11 í heilbrigðisáætluninni, en þar er fjallað um heilbrigðari lífshætti, lýtur að þessu og lagði nefndin áherslu á að því markmiði yrði fylgt fast eftir.

Rannsóknir hafa sýnt fram á allt að 18% dánarlíkur sjúklinga með lystarstol og þrátt fyrir meðferð munu batahorfur einungis vera um 50%. Viðtalsmeðferð hefur yfirleitt verið undirstaða í meðferð við áttruflunum en þrátt fyrir ýmsar rannsóknir er ekki ljóst hvaða meðferðarform er árangursríkast eða hvaða meðferðarþættir skipta mestu máli.

Faraldsfræðileg rannsókn á átvandamálum íslenskra barna og unglinga á aldrinum 4--18 ára, en hún var gerð meðal 900 barna hvaðanæva að af landinu, sýndi að um 15% barna borðuðu of mikið en allt að 40% barna áttu við lystarleysi að stríða. Þessi rannsókn var gerð af Helgu Hannesdóttur barna- og unglingageðlækni 1994.

Hér á landi stendur nú yfir rannsókn á umfangi og meðferð áttruflana, lystarstols og lotugræðgi sem ætlað er að ná til allra þeirra sem koma til meðferðar og greinast með sjúkdóminn yfir þriggja ára tímabil. Rannsókn þessi er liður í samvinnuverkefni 18 Evrópulanda og er verkefnið stutt af ESB og nefnist COST Action B6. Í forsvari fyrir verkefninu hér á landi eru geðlæknarnir Helga Hannesdóttir og Jón G. Stefánsson.

Í grg. með þáltill. kemur fram nýjasta skilgreining á lystarstoli og lotugræðgi, sem ég ætla ekki að rekja hér. En í grein um lystarstol og lotugræðgi úr tímaritinu Heilbrigðismálum 3/1996 segir Eiríkur Örn Arnarson sálfræðingur m.a.:

,,Þeir sem greinast með lystarstol og lotugræðgi eiga það sameiginlegt að vera gagnteknir af hugsun um mat. Líkamsmyndin er brengluð, þannig að þeim finnst ummál líkamans vera stærra en það í rauninni er, þeir eru sannfærðir um að þeir þurfi að léttast og ákveðnir í að halda líkamsþyngd innan marka sem þeir setja sér og þvinga sig til að halda.

Lystarstol er kvilli sem hrjáir aðallega konur og einkennist af verulegu þyngdartapi og næringarskorti vegna þess að fólk forðast að borða orkuríkan mat. Uppsölur og tilraunir til að hreinsa líkamann á annan hátt, t.d. með stólpípum eða hægðalyfjum, eru áberandi hjá þeim sem þjást af lystarstoli. Yfirdrifin líkamsrækt er stunduð til þess að léttast. Hjartsláttur er oft óreglulegur. Hárvöxtur getur verið afbrigðilegur.`` --- Hér er átt við aukningu á líkamshárum, húðin verður loðnari en eðlilegt getur talist.

,,Bjögun á líkamsímynd er einkennandi fyrir lystarstol. Þrátt fyrir að stúlkurnar séu aðeins skinn og bein finnst þeim þær vera of feitar.

Þegar fólk léttist aðlagar líkaminn sig að breyttri líkamsþyngd, það hægir á starfsemi og efnaskiptum líkamans, hitastig hans fellur og því er konum með lystarstol oft kalt. Tíðir hætta vegna þess að svo grannur líkami getur ekki alið barn. Andúð á mat eykst í réttu hlutfalli við hve mikið konan hefur lést.

Lystarstol leiðir til þess að viðkomandi léttist meira en eðlilegt getur talist og afstaða til þess að borða og þyngjast verður neikvæð. Þegar því er haldið fram að konan sé of grönn útilokar hún þau rök og gerir sér í hugarlund að hún sé í eðlilegri þyngd eða of þung. Konur með lystarstol leyna því hve grannar þær eru með því að klæðast víðum fötum. Þá reyna þær einnig að velja sér hálfgerða spéspegla sem sýna þær breiðari en þær eru.

Þær stúlkur sem þjást af lystarstoli hafa mikla þörf fyrir að hreyfa sig, jafnvel þótt þær séu þreyttar og aðframkomnar. Þær sem haldnar eru lystarstoli ganga að meðaltali 12--14 kílómetra á dag en venjuleg kona gengur nær helmingi styttra.

Lystarstol ágerist hægt og rólega og getur tekið eitt til tvö ár að koma fram. Nákomnir átta sig því ekki á vandanum fyrr en um seinan. Foreldrar taka stundum fyrst eftir því að eitthvað hefur farið úrskeiðis þegar þeir skoða nokkurra mánaða gamlar myndir af barni sínu. Viðbrögð fjölskyldu verða oft mikil og einkennast af kvíða. Þegar þannig er komið er hyggilegast að leita til heimilislæknis sem vísar áfram til fagmanna sem fást við lystarstol.

Flestar eiga stúlkurnar erfitt með að viðurkenna vandamálið. Það er ekki fyrr en í lengstu lög að þær fara í meðferð, enda finnst þeim ekki vera neitt að sér. Þeim finnst þyngd sín og útlit eðlilegt og sama gildir um mikla þörf fyrir hreyfingu. Meðferðar er oftast leitað að undirlagi foreldra eða nákominna. Stúlkurnar óttast mest af öllu að fitna og að þær muni tútna út ef þær borði eðlilega. Þær eru orðnar vanar svo litlu magamáli að þeim finnst óþægilegt að borða og vita ekki hve mikið er óhætt að borða.

Stúlkurnar verða matvandar og borða aðeins vissar fæðutegundir. Það felst þversögn í því að þeim er umhugað um að þeir sem þær búa með borði vel, þó að þær svelti sjálfar heilu hungri. Einnig óttast þær að vera vaktaðar á meðan þær borða. Óttinn beinist oft gegn ákveðnum mat, til dæmis feitmeti, sósum og öllu sem er orkuríkt.``

Á Íslandi hefur verið unnið talsvert að því að greina og fyrirbyggja lystarstol og lotugræði. Þannig gaf Geðlæknafélag Íslands út klínískar leiðbeiningar fyrir u.þ.b. þremur árum, Leiðarvísi um lækningameðferðir við átröskunum. Þær voru þýddar upp úr leiðbeiningum frá ameríska geðlæknafélaginu.

Ég hafði ekki hugsað mér að fara nánar í þessa greinargerð, herra forseti, en ítreka að átraskanir eru oftast leyndir sjúkdómar sem greinast seint. Það skiptir þess vegna mjög miklu máli að reyna að finna þetta fólk sem fyrst áður en það festist í sjúklegu mynstri. Þetta er alþjóðlegt vandamál, sérstaklega er það áberandi í velmegunarþjóðfélögum heimsins. Ég hef viðað að mér nokkrum blaðagreinum úr erlendum blöðum því tíðni átraskana er ekki síður áhyggjuefni en þær tölur sem við erum að tala um hér. Í Bandaríkjunum er til hópur sem kallar sig ,,Önnurnar`` og þær eru komnar með heimasíðu. Þær berjast fyrir þeim sjálfsagða rétti sem þær álíta að þær hafi, að vera í laginu eins og þeim sýnist. Þetta er því orðin valdabarátta þeirra, ekki bara við fjölskyldurnar heldur við þjóðfélagið. Þær eru að reyna að breiða út boðskap sinn og líta á það sem boðskap. Og þetta er auðvitað afar hættuleg braut að feta sig eftir og að lenda í þessu neti.

Ein grein sem ég las í bresku blaði heitir ,,Dying to be thin`` --- þær dauðlangar að vera mjóar --- en orðalagið á enskunni segir einnig til um að dánartíðnin er geigvænleg í átröskunum.

Í kanadískri könnun kom fram að um fjórðungur unglingsstúlkna eigi við átröskunarerfiðleika að stríða. Það er könnun sem birt var í tímaritinu Canadian Medical Association Journal, sem er læknablað.

Allt þetta vil ég segja til að undirstrika mikilvægi þess að heilbrigðisyfirvöld sjái um að boðið sé upp á þverfaglega þjónustu í þessu efni, í og með til að styðja við þá sem fást við og greina þessar stúlkur veikar í upphafi, sem mjög oft er heilsugæslan en einnig skólahjúkrunarfræðingar og aðrir sem koma að málefnum ungs fólks. Styðja þyrfti við það starf sem farið er af stað á Landspítalanum þannig að heilbrigðisyfirvöld fái yfirsýn yfir það hvernig málum er komið hér á landi.