Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 16:36:07 (3858)

2002-01-31 16:36:07# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[16:36]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Tillaga sú sem hér er til umræðu er satt að segja nokkurt skemmtiefni, ekki síst fyrir þær sakir að með henni er staðfest að Vinstri grænir hafa með henni fallið frá andstöðu sinni við virkjun við Kárahnjúka.

Hæstv. forseti. Hvað hef ég við tillöguna að athuga? Jú, það er:

1. Ekki er nokkur hefð fyrir því hér á landi að halda þjóðaratkvæðagreiðslur.

2. Hér er ekki um skýra valkosti að ræða.

3. Kosningin á að fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum og trufla þá umræðu.

4. Einungis er gert ráð fyrir að í málinu komi fram þau sjónarmið sem eru í þessari tillögu.

5. Að peningunum á eingöngu að skipta jafnt á milli tveggja meginsjónarmiða, en þeir sem hafa önnur sjónarmið en þar koma fram eiga ekki að fá neitt. Hæstv. forseti. Vorum við þarna að tala um lýðræðislega umræðu?

Hér er enn gerð veikburða tilraun til þess að halda áfram því máli sem hefur fengið alla þá lýðræðislegu og stjórnsýslulegu umfjöllun sem hægt er að hugsa sér með umhverfismati og kæruferli. Vinstri grænir geta greinilega ekki sætt sig við þær vinnureglur sem hafa verið mótaðar á lýðræðislegan hátt. En þá á að stofna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðsla um einstök mál eða framkvæmdir á sér ekki nokkra hefð hér á landi og eru reyndar afar fátíðar hvert sem litið er í heiminum. Mér finnst satt að segja Vinstri grænir vera að gera heldur veikburða tilraun til þess að skjóta sér undan þeirri ábyrgð sem lögð er á herðar þeim sem þingmanna og ætlast er til að þeir axli.

Ef niðurstaðan á að vera að setja í þjóðaratkvæði allar framkvæmdir og nýbreytni í atvinnumálum sem menn líta til hér á landi þá eru mál líklega komin í óefni, herra forseti. Eigum við að líta til laxeldis sem stofnað er til á Austurlandi um þessar mundir, eða þorskeldis, eða ágang ferðamanna á ósnortin víðerni, eða fjallagrasatínslu sem sumir vilja halda fram að fari gífurlega illa með gróðurþekju hálendisins? Á ekki t.d. að leggja allt samgöngukerfi landsins undir þjóðaratkvæði þar sem gífurlegir fjármunir fara árlega til stofnframkæma þar og nýtt land er brotið undir samgöngumannvirki? Er þetta stefnumörkun frá Vinstri grænum um að allar framkvæmdir sem til framfara horfa á landsbyggðinni skuli leggja undir þjóðaratkvæði og þar með eingöngu tefja og draga úr framtaki manna til atvinnusköpunar? Hefur þessi flokkur ekki verið að gera sig gildandi í umræðunni um byggðaþróun í landinu? Er það þeirra stefna að hefta skuli allt sem til framfara horfir í atvinnumálum? Er það þeirra stefna að allir skuli flytja til höfuðborgarinnar því að athafnafrelsi á landsbyggðinni eigi ekkert að vera?

Þingmenn eru lýðræðislega kosnir, herra forseti, til að taka afstöðu til ýmissa m.a. mjög erfiðra mála og eiga ekki að víkja sér undan því. Það á einnig við um Vinstri græna. Þeir geta ekki skotið sér undan þeirri ábyrgð sem þeir eru kosnir til.

Herra forseti. Um hvað ætti svo að kjósa? Ekki er ljóst af tillögunni hvort um er að ræða útfærslu umhvrh. eða upphaflegar hugmyndir framkvæmdaraðila. Þó má lesa af orðalaginu að vísað sé til upphaflegra framkvæmdaáforma Landsvirkjunar.

Hver er svo hinn kosturinn sem boðið er upp á? Það er ekki að falla frá virkjunaráformum. Það er að bíða eftir að nefnd embættismanna ljúki störfum sínum um að flokka virkjunarkosti. Þegar sú nefnd er búin að raða upp, þá má væntanlega fara í framkvæmdirnar því ekki leikur nokkur vafi á því að umrædd virkjun verði fremst á forgangslista rammaáætlunar. Það er sem sagt ekki nokkur kostur fyrir þá sem alls enga virkjun vilja við Kárahnjúka. Ætli sumum kjósendum Vinstri grænna þyki þeir ekki sviknir miðað við stóru orðin sem hafa fallið frá þeim ágætu hv. þm. sem tillöguna flytja.

Ef við lítum á framkvæmdina sem þessi tillaga fjallar um þá er hér um gífurlega mikla og flókna framkvæmd að ræða. Sérfræðingar á ýmsum fræðasviðum hafa legið yfir hönnun og útfærslu framkvæmdarinnar og metið þau umhverfisáhrif sem hún muni hafa. Er hægt að ímynda sér að mögulegt sé að kynna öllum almenningi málið á skömmum tíma til þess að almenningur geti tekið afstöðu í málinu? Jafnvel má búast við að allur almenningur hafi takmarkaðan áhuga á málinu. Við getum t.d. rifjað upp áhuga almennings á flugvallarkosningunni í Reykjavík. Það voru eingöngu 37% atkvæðabærra manna sem áhuga höfðu á málinu þrátt fyrir gífurlega fjölmiðlaumfjöllun og útgáfu kynningarefnis, enda reyndist niðurstaðan ónothæf til ákvarðanatöku eins og ljóst má vera af framhaldinu. Hvað á að gera við niðurstöðurnar ef áhugi almennings verður á svipuðu róli og í flugvallarmálinu?

Tillagan gerir ráð fyrir að kosningin fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum. Það er augljóst að ríkisstyrkt umræða um svo flókið mál ofan í umræðu um sveitarstjórnarmál mun trufla þá umræðu sem nauðsynlegt er að fari fram í hverju byggðarlagi um sveitarstjórnarmálin. Ekki er ljóst hvor málaflokkurinn yrði ofan á í umræðunni en það er þó reynslan að fjölmiðlar hafa haft mun meiri áhuga á virkjunarmálunum hingað til en sveitarstjórnarmálum.

Eins og fram hefur komið, hæstv. forseti, er hér eingöngu gert ráð fyrir þeim kostum að hefja framkvæmdir eða fresta framkvæmdum. Ekki er gert ráð fyrir þeim sem vilja alls engar framkvæmdir eða þeim sem vilja ganga enn lengra í nýtingu orkukosta á hálendinu eða þeirra sem vilja allt aðra útfærslu á virkjunarhugmyndum. Sjónarmið þessara hópa eru jafngild í umræðunni þegar kemur til þess að ræða á lýðræðislegan hátt nýtingu orkukosta til atvinnusköpunar. Þetta leiðir svo aftur hugann að því hvernig tillagan gerir ráð fyrir nýtingu þess fjármagns sem gert er ráð fyrir að ríkið leggi í auglýsingaherferðir fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Einungis er gert ráð fyrir því að þeir fái peninga sem fylkja sér í flokk þeirra sem vilja fresta framkvæmdum eða þeirra sem vilja framkvæma strax.

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að ótalmargar skoðanakannanir hafa verið gerðar um afstöðu þjóðarinnar til framkvæmda á hálendinu og afstaðan hefur ávallt verið á svipuðu róli, þ.e. að meiri hluti landsmanna að ahyllist nýtingu hreinna orkugjafa sem við eigum í fallvötnum okkar og að meiri hluti landsmanna aðhyllist virkjun við Kárahnjúka.

Ekki hefur verið þrautalaus ganga fram að þessu að koma á þessum virkjunaráformum og ég ætla ekki að halda því fram að brautin sé bein fram undan. Það er hins vegar svo að það heyrist úr æ fleiri áttum hversu gífurlega mikilvægar fyrir efnahagslíf landsins framkvæmdirnar eru. Þannig lýsti miðstjórn ASÍ yfir stuðningi sínum við virkjunaráform og uppbyggingu stóriðju á Austurlandi. Miðstjórnin telur að forsenda aukins hagvaxtar og bættra lífskjara á komandi árum sé stöðug og viðvarandi aukning útflutningstekna og í samræmi við það beri að nýta þá orku sem landsmenn búa að. Það hlýtur að teljast mikill styrkur þegar stærstu og mikilvægustu launþegasamtök landsins lýsa yfir svo einörðum stuðningi við framkvæmdaáformin í því mikla áróðursstríði sem á okkur hefur dunið á undanförnum árum.

Hæstv. forseti. Við eigum að halda ótrauð áfram við undirbúning að virkjun við Kárahnjúka.

Hæstv. forseti. Tillagan er ónothæf til þinglegrar meðferðar.