Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 16:59:46 (3861)

2002-01-31 16:59:46# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[16:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur.

  • Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
  • Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
  • Svo kvað skáldið Tómas Guðmundsson í upphafi hins þekkta kvæðis, Hótel jörð. Síðar í kvæðinu víkur skáldið að því að umdeilt sé hvort hótelið sjálft, þ.e. jörðin, muni græða á viðskiptunum.

  • En við, sem ferðumst, eigum ei annars völ.
  • Það er ekki um fleiri gististaði að ræða.
  • [17:00]

    Afrísk lífsspeki, sem hefur orðið fleyg í umræðum um umhverfismál á síðari árum í tengslum við vakningu þar að lútandi gengur út á að minna okkur á að við höfum ekki erft jörðina frá forfeðrum okkar, við eigum hana ekki, heldur höfum við hana að láni frá börnum okkar, með öðrum orðum frá framtíðinni. Og því sem maður hefur að láni, hæstv. ráðherrar, á maður að skila í jafngóðu ástandi og maður tók við því.

    Eins er farið með okkur, íslenska þjóð og landið okkar, og mannkynið allt og hótel jörð. Við eigum aðeins þetta land og eigum þó ekki heldur höfum við það að láni, erum gæslumenn þess í þágu okkar sjálfra vissulega en eins framtíðarinnar, barna okkar og barnabarna, óborinna kynslóða og allrar framtíðar. Og við eigum að skila því sem höfum að láni óskemmdu.

    Hér, herra forseti og góðir áheyrendur, gildir ekki aðeins hið mannhverfa viðhorf. Lífríki og náttúra er líka til í sínum eigin rétti og öll umgengni mannsins á að byggjast á virðingu og hófsemd og hafa grundvallarreglur sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi.

    Við Íslendingar nefnum oft á hátíðlegum stundum að skyldur okkar sem þjóðar lúti að því að varðveita þjóðararfinn. --- Herra forseti. Ég get gert hlé á máli mínu meðan ráðherrar ræða hér þannig saman að það truflar mig við málflutninginn. En ég óska þá eftir því að það dragist frá ræðutíma mínum.

    Skyldur okkar sem þjóðar lúta að því að varðveita þjóðararfinn, menningu og tungu, minjar og sögu. Sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar er oft nefndur í sömu andrá. En hvað með landið sjálft? Hljóta þessar skyldur ekki að lúta að varðveislu lands og náttúru, þessara fágætu gersema sem okkur hefur hlotnast að gæta á því sviði? Jú, allir réttsýnir menn hljóta að viðurkenna að svo sé. Ágreiningur getur aðeins staðið um hvað þessi gæslu- og varðveisluskylda feli í sér, hvaða takmarkanir þetta feli í sér gagnvart nýtingu landsins og umgengni við það, auðlindir þess og náttúru alla.

    Tillaga okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er að hin gríðarstóru umdeildu og afdrifaríku áform um stórvirkjun á hálendinu norðan Vatnajökuls verði lögð í dóm þjóðarinnar sjálfrar, að ykkur, landsmenn góðir, verði gefinn kostur á að kynna ykkur betur helstu staðreyndir málsins gegnum málflutning talsmanna meginsjónarmiða í málinu sem fái til þess nokkurn fjárstuðning að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í aðdraganda kosninga. Þannig verði lýðræðið virkjað beint og milliliðalaust og þjóðin sjálf taki af skarið um framhaldið.

    Eðlilegt er að ýmsar spurningar vakni í þessu sambandi og meðal þeirra gætu verið: Er þetta mál það stórt og afdrifaríkt að það réttlæti þjóðaratkvæðagreiðslu? Svarið er hiklaust já. Um er að ræða stærstu einstaka framkvæmd með langvíðtækustu umhverfisáhrif sem nokkru sinni hefur komist á dagskrá að ráðast í hér á landi. Um 3% landsins alls yrðu fyrir áhrifum. Stærsta ósnortna víðerni landsins sem eftir er, og að talið er það stærsta í allri Evrópu, yrði raskað. Neikvæð umhverfisáhrif yrðu umtalsverð og óafturkræf og það yrði viðfangsefni kynslóðanna eftir okkar daga að glíma við vaxandi vandamál þegar uppistöðulón fyllast af seti og áfok vex. Stærsta ósnortna hálendissvæði Íslands yrði raskað. Það yrði aldrei samt. Möguleikum til stofnunar þjóðgarðs sem yrði einstakur í sinni röð á heimsmælikvarða yrði verulega spillt.

    En er málið þannig vaxið að auðvelt sé að leggja það fyrir? Svarið er einnig já. Það eru tveir meginkostir í stöðunni, þ.e. annars vegar að láta nú vaða og ráðast í þessa framkvæmd eða að gera það ekki, hætta við þessa framkvæmd, setja málið í annan farveg, taka fyrst afstöðu til þess hvernig þetta svæði verði verndað og það nýtt, taka afstöðu til hugmynda um þjóðgarð o.s.frv. Þessi kostur gefur einnig færi á því að bíða þess að fyrir liggi úttekt á virkjanakostum og forangsröðun með tilliti til umhverfisáhrifa sem loksins er farin af stað en hvergi nærri lokið. Aðra hagsmuni, t.d. hagsmuni ferðaþjónustunnar, áhrif á ímynd landsins, mat á því hvers virði náttúran sjálf sé --- sem nú er metin á núll krónur --- og loks mjög umdeild þjóðhagsleg áhrif, allt þetta og miklu fleira til gæfist þá tóm til að skoða.

    Hér hafa menn gagnrýnt það að ekki sé stillt upp með hreinum hætti kostunum með eða á móti þessari virkjun. Halda menn að andstæðingar þessara framkvæmda komi til með að eiga í vandræðum í svona kosningum? Nei, þeir leggjast að sjálfsögðu gegn því að framkvæmdir hefjist. En það gera einnig þeir sem vilja að málið verði skoðað betur og telja ekki rétt að taka nú óafturkræfa ákvörðun um að hefjast handa.

    Ólundarlegar tilraunir umhvrh. til að finna þessari tillögu allt til foráttu voru harla vandræðalegar. Tal um samstöðu meðal þingmanna í máli sem klýfur þjóðina í tvennt er líka sérkennilegt. En hafi málflutningur umhvrh. verið vandræðalegur var þó framganga formanns Samfylkingarinnar sýnu verri. Fyrst byrjar hv. þm. Össur Skarphéðinsson á að lýsa því hversu eindreginn stuðningsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna hv. þingmaður sé, en bara ekki þessarar. Formaður Samfylkingarinnar, sjálfur lýðræðishöfðinginn, horfir fram hjá því að fái þjóðin að láta álit sitt í ljós og sé það nú þannig að meiri hluti hennar sé andvígur því að ráðast í þessar framkvæmdir þá fær sá meiri hluti tækifæri til að stöðva þær. Það á ekki að láta hann gjalda þess að menn geti haft mismunandi sjónarmið um tæknilega útfærslu kosninganna. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér fannst formaður Samfylkingarinnar með málflutningi sínum hér áðan gera sig endanlega að skoffíni í umfjöllun um þetta mál eins og hann stillti hlutunum upp.

    En hvað þá með byggð á Austfjörðum og áhrif á hagvöxt? Höfum við efni á því að sleppa þessu tækifæri? Ja, hvað segja landsfeðurnir? Ástandið í atvinnu- og efnahagsmálum hefur aldrei verið betra og það er auðvitað staðreynd að það verður ekki fátækt sem verður þess valdandi að íslenska þjóðin hefur ekki efni á því að varðveita hálendi sitt, ef svo fer. Það verður metnaðarleysi og virðingarleysi fyrir því landi sem okkur hefur verið falið að gæta.

    Við sem að þessari tillögu stöndum, herra forseti, treystum dómgreind þjóðarinnar. Við vitum hvaða tilfinningu þjóðin ber í brjósti til lands síns. Við trúum á málstað okkar og erum óhrædd við að leggja hann í dóm þjóðarinnar. --- Ég þakka áheyrnina.