Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 17:43:08 (3868)

2002-01-31 17:43:08# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér þykir mjög miður ef þetta orð, sem mér var tamt að nota í uppvexti og var alls ekki talið niðrandi í þeirri merkingu sem mér finnst aðfinnsla forseta láta liggja að, hefur komið þannig við menn. Ég biðst þá velvirðingar á því, bið hv. þm. Össur Skarphéðinsson velvirðingar á að hafa notað orðalag sem kann að hafa verið særandi umfram tilefni. Ég hef mér það eitt til varnar að ég ólst upp við það að það var ekki ósjaldan sem menn töluðu t.d. um krakkaskott, að þau væru nú hálfgerð skoffín, og þótti ekki tiltakanlega niðrandi. Þessi orðanotkun mín byggði því á þeirri máltilfinningu minni að ekki væri um tiltakanlega neikvæða eða niðrandi samlíkingu að ræða. Það var að sjálfsögðu alls ekki ætlun mín að viðhafa óviðurkvæmileg orð um hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hafi svo tekist til biðst ég velvirðingar á því, dreg þessi ummæli mín til baka.