Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:16:09 (3876)

2002-01-31 18:16:09# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:16]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það var þessi gamli frasi hjá hv. þm.: Nú líður þingmönnum stjórnarinnar illa þegar við förum að tala um byggðamál á Alþingi, við Vinstri grænir. Það er nú meira hvað þeim líður illa núna stjórnarþingmönnum þegar Vinstri grænir standa í salnum. Hv. þm. tekur út fyrir að horfa á þetta auma lið, svo sprækur sem hann er. En ég skal nú ekki segja hvor er sprækari, hann eða hv. þm. Pétur H. Blöndal. Gaman væri að sjá þá etja kappi og hlaupa nokkra hringi kringum Alþingishúsið. Við höfðum þann háttinn á, ég og fyrrverandi forseti þingsins, Salome Þorkelsdóttir, að við fórum á hestum í kringum Austurvöll. Það er ótrúlega miklu þægilegra en að rembast við að hlaupa þetta.

En ég vil minna hv. þm. á að hér voru ferðamál til umræðu í dag og var verið að tala um flugfélagið Go. Ég minnti á hinn bóginn á að Flugleiðir standa hér að miklu leyti undir ferðaþjónustu og það má vera að gjaldeyristekjur af rekstri þess fyrirtækis séu um 20 milljarðar króna. Það álver sem við erum nú að tala um mun fullbyggt skila svipuðum gjaldeyristekjum og öll ferðaþjónustan, svo það eru ekki litlir peningar.

Ef við hugsum jafnframt um að við getum ekki búist við því að lífskjör geti haldið áfram að batna hér nema gjaldeyristekjurnar aukist þá þarf auðvitað verulega ástæðu til þess að vera alltaf að amast við útflutningsatvinnuvegunum og reyna að gera þeim erfitt fyrir. Að tala um að þau spor sem verið er að stíga núna í laxeldi, t.d. á Austurlandi, sé ekki nokkur skapaður hlutur er beinlínis að snúa hlutunum við.