Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 10:48:23 (4206)

2002-02-07 10:48:23# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[10:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þátttaka í flugöryggissamtökum Evrópu, JAA, hefur gjörbreytt flugöryggi á Íslandi var fullyrt af yfirmanni flugöryggismála á flugþingi í fyrra og heimasíðu Flugmálastjórnar. En í júní 1999 auglýsir samgrh. að kröfur Evrópusamtakanna um skírteini og heilbrigðiskröfur þeirra fyrir flugskírteini skuli gilda um útgáfu flugskírteina hérlendis.

Sami samgrh. fer nú mikinn þegar yfir- og trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar og fulltrúi Íslands í læknanefnd JAA gefur út heilbrigðisvottorð samkvæmt þessum sömu reglum. Vottorð sem landlæknir staðfestir að sé óumdeild rétt niðurstaða í séráliti úrskurðarnefndar. Hvaða vinnubrögð eru það að ætlast til að lögfræðingar eða fagfélög gefi fyrirmæli um það hver fái heilbrigðisvottorð og hvað í þeim stendur? Á hvaða plani eru stjórnarathafnir ráðherrans? Hvaða hagsmunir eru svo ríkir að ráðherrann er tilbúinn að hætta flugöryggi og rekstrargrundvelli millilandaflugs á Íslandi með pólitískum íhlutunum í fagleg vinnubrögð eftir reglum og að kröfu Evrópusamtaka JAA? Með þeim trúnaðarbresti sem kominn er upp milli íslenskra stjórnvalda og flugöryggissamtaka Evrópu í kjölfar þessa máls eigum við á hættu að verða ekki samþykkt áfram innan þeirra raða. Án gæðastimpils Evrópusamtakanna JAA dettum við út úr samfélagi þjóða í flugrekstri og flugöryggi er ógnað. Flugrekendur hérlendis verða þá að leita til annarra landa með rekstur sinn. Það hef ég staðfest frá þeim sem gjörþekkja til.

Ég trúi því ekki að náin frændsemi umrædds flugstjóra við framkvæmdastjóra Sjálfstfl. ráði hér ferð eins og hvíslað hefur verið. Ég trúi því ekki að slíkt Nígeríustjórnarfar ríki hér. (Gripið fram í.) En hvað ræður ferðinni? (Gripið fram í.) Ég trúi því ekki.

Þetta mál ofan á aðrar embættisfærslur ráðherrans staðfesta efasemdir um að hann sé starfi sínu vaxinn. Æðsti yfirmaður flugstarfsemi á Íslandi er að koma framtíð flugs hér á landi í grafalvarlega stöðu. (GHall: Á þá Gróa á Leiti að taka sér bólfestu í ræðustól Alþingis?)