Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:46:55 (4221)

2002-02-07 11:46:55# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:46]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Heilmiklar sveiflur hafa orðið hjá höfnum landsins í tekjum frá einum tíma til annars. Til eru sjávarbyggðir sem hafa misst frá sér flota og hafa ekki þar af leiðandi tekjur af aflagjöldum, sem er stærsti tekjustofninn hjá höfnunum, aflagjaldið. Sem betur fer er þó ekki um mörg tilvik að ræða af því tagi sem hv. þm. vekur athygli á. Ég held engu að síður að samgn. þurfi að líta yfir það mál. Hafnasamband sveitarfélaga hefur í gegnum tíðina fylgst afar vel með afkomu hafnanna og árlega gefið út skýrslu um það. Þar er hægt að skoða afkomu hverrar einustu hafnar í landinu.

Hafnabótasjóður hefur tekið mið af þessu, eins og ég sagði áður, við veitingu framlaga því að hafnir sem hafa haft nægar tekjur hafa fengið lán úr Hafnabótasjóði en hafnir sem orðið hafa fyrir mikilli tekjuskerðingu eða verið reknar með verulegum halla hafa fengið styrki.

Þetta er ábending sem ég tel að hv. samgn. muni skoða. Aðalatriðið er að við komum á góðu rekstrarumhverfi og tryggjum áframhaldandi góða uppbyggingu í höfnum landsins og vaxandi þjónustu. Það má ekki gleyma að huga að breyttri þjónustu á mörgum sviðum. Það kann vel að vera að í framtíðinni verði aukin umferð skemmtiferðaskipa og margs konar þjónusta við ferðamenn í höfnum landsins. Það þarf að leggja á ráðin um hvernig best yrði að slíkri þjónustuppbyggingu staðið.