Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:49:10 (4222)

2002-02-07 11:49:10# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:49]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við fyrstu sýn og yfirferð yfir þetta frv., eftir því sem við höfum haft tækifæri til að skoða það, virðist mér sem frv. sem hér liggur fyrir sé í takt við þá umræðu og þær hugmyndir sem þróast hafa á ýmsum sviðum samfélagsins undanfarin ár. Mér sýnast þau nýmæli sem hér er lagt upp með þess eðlis, verði þetta frv. að lögum, að frv. geti verið spor fram á við.

Hér er í nokkrum atriðum gerð grein fyrir helstu nýmælum sem ætlunin er að ná fram með þessum lögum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að samræmd gjaldskrá hafna verði aflögð og ákvæði samkeppnislaga gildi um gjaldtöku þeirra. Í því felst að höfnunum er ætlað að keppa sín á milli um þjónustu, verð o.s.frv. Ég held að þegar til lengri tíma er litið muni það verða samfélaginu í heild sinni til góðs og ég fagna að menn leggi þetta upp með þessum hætti. Í öðru lagi eru hér ýmis ákvæði um að heimilt verði að breyta rekstrarformi hafna, m.a. breyta þeim í hlutafélög. Í sjálfu sér er ekkert í fljótu bragði sem gæfi ástæðu til að leggjast gegn því. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að frv. taki til allra hafna sem reknar eru í atvinnuskyni. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að móttökuskylda hafna sé skilgreind. Í fimmta lagi eru ríkisafskipti af höfnum minnkuð en áfram gert ráð fyrir að lagfæringar og viðhald á skjólgörðum verði greitt að hluta úr ríkissjóði. Í sjötta lagi er ætlunin að framtíð smærri hafna verði betur tryggð en í núgildandi lögum. Í því felst að tilteknar hafnir, sem skilgreindar eru nákvæmlega í þessum lögum, geti fengið styrk úr ríkissjóði þrátt fyrir að meginhugsunin sé sú að hafnirnar keppi sín á milli.

Mér sýnist að um leið og reynt er að etja höfnum saman svo þær fái færi á að sýna hver þeirra er hæfust, veitir besta þjónustu og býður besta verðið, sé reynt að tryggja framtíð minni hafna sem að sjálfsögðu eru ekki samkeppnisfærar við hinar stóru. Í sjöunda lagi, eins og fram kemur í athugasemdum, eru önnur stjórnvaldsafskipti af höfnum betur skilgreind en nú er.

Mér sýnist, virðulegur forseti, við fyrstu yfirferð og fyrstu sýn að ýmislegt í þessu frv. geri það að verkum að ástæða sé til að fagna því og taka jákvætt í efni þess. Þar sem ég sit í hv. samgn. mun mér gefast tækifæri til að fara betur yfir þetta. Við 1. umr., virðulegi forseti, vil ég lýsa því yfir að frv. leggst vel í mig og ég held að eftir að samgn. hefur farið vandlega yfir það geti breytingin orðið höfnum og þeim sem við þær skipta til framdráttar.