Lánshæfi Íslands

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:22:28 (5875)

2002-03-11 15:22:28# 127. lþ. 94.1 fundur 391#B lánshæfi Íslands# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hef kynnt mér þessa skýrslu afar vel og þá síðustu sem hv. þm. nefndi afar vel. Þess vegna gat ég svarað því til að hún er bersýnilega byggð upp á dálítið fornum tölum nú orðið og kannski vegna þess að þeir aðilar eru tiltölulega nýir gagnvart Íslendingum sem hafa verið að véla þarna um á vegum þessa fyrirtækis núna. Þeir hafa ekki byggt upp þá innri þekkingu sem hin tvö stóru matsfyrirtækin hafa gert. Það skiptir auðvitað meginmáli að viðskiptahallinn hefur minnkað miklu, miklu örar en íslenskar efnahagsstofnanir þorðu að vona og spá. Reyndar var það þannig að ríkisstjórnin og fjmrn. hafði hið rétta fyrir sér miðað við margar þær efnahagsstofnanir sem aðrir kusu að hafa meiri trú á varðandi þróun á viðskiptahalla.

Hins vegar hefur einnig komið okkur til góða varðandi viðskiptahallann að meðan á honum hefur staðið og mesti kúfurinn verið, þá hafa vextir erlendis verið með óvenjulega bærilegum brag vegna þess að menn hafa lækkað vexti þar mjög hratt til þess að reyna að koma á nokkurri spennu á nýjan leik þar á bæ. Þar hafa sem sagt aðstæður verið allt aðrar og við sem betur fer ekki þurft að lúta þeim sömu lögmálum eins og ef við til að mynda værum í Evrópusambandinu og byggjum við evru, þá þyrftum við að lúta slíkum lögmálum og búa við vaxtastig sem væri okkur óhagstætt.