Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:16:13 (5895)

2002-03-11 16:16:13# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega á öndverðri skoðun við hv. þm. Ég teldi varhugavert ef borgarar sem fengið hefðu niðurstöðu undirritaða af lágtsettum starfsmönnum ráðuneytis, sem þeir út af fyrir sig eiga að taka fullt mark á, mundu þar með komast að þeirri niðurstöðu að þar sem bréfið væri undirritað af starfsmönnum ráðuneytisins væri ekki nokkur leið að þeir gætu borið málin undir ráðherra, æðra stjórnvald. Ég held að það væri hið versta mál ef þau yrðu þannig túlkuð. Stjórnsýsla okkar byggir á því almennt séð að menn hafi málskotsrétt til æðri stjórnvalda.

Við höfum reynt að gæta þess við lagasetningu í ríkisstjórninni að ráðherrar komi sér ekki undan því að fjalla um mál með því að vísa þeim til úrskurðarnefndar, og síðan mætti ekki kæra úrskurði hennar til ráðherra. Ég get sagt það hér, og það er ekkert leyndarmál, að við höfum í ríkisstjórn iðulega stöðvað frumvörp frá fagráðherrum sem hafa byggst á því að ráðherrarnir hafa gjarnan viljað losna við að bera hina stjórnskipulegu ábyrgð á erfiðum og kannski ekki alltaf skemmtilegum úrlausnarefnum og viljað skipa alls konar stjórnsýslunefndir sem bæru endanlega ábyrgð í málinu. Við höfum sagt að það bryti í bága við uppbyggingu á íslensku stjórnsýslunni að ráðherra viki sér þannig undan því að fara rétt með vald sitt.