Tollalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 18:04:19 (5927)

2002-03-11 18:04:19# 127. lþ. 94.8 fundur 583. mál: #A tollalög# (sektir, barnabílstólar) frv. 66/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram er efni þessa frv. tvíþætt, annars vegar hækkun sektarheimilda tollstjóra og hins vegar niðurfelling á tolli á barnabílstólum.

Mig langar aðeins að víkja að fyrra ákvæðinu fyrst en það vekur nú upp eina eða tvær spurningar. Í fyrsta lagi er verið að heimila fjmrh., líkt og dómsmrh. hefur heimild til, þ.e. tollstjóri getur lokið minni háttar málum með sátt ef brot er skýlaust sannað og það varðar ekki hærri sekt en 75 þús. kr. en lagt er til að þessi heimild verði hækkuð í 300 þús. kr. og rökin eru þau að verið sé að samræma það því sem gerist varðandi sektarheimildir hjá lögreglustjóra, en þar er heimild til þess að ljúka máli með lögreglustjórasátt telji hann fjárhæð sektar ekki fara fram úr 300 þús. kr.

Það sem í fyrsta lagi vekur athygli mína er að samkvæmt tollalögum og lögum um meðferð opinberra mála virðist svo vera að dómsmrh. geti hækkað þessa heimild sem hann hafði í 300 þús. kr. --- það gerði hæstv. ráðherra með reglugerð 22. des. árið 2000, þ.e. hækkaði úr 35 þús. kr., eins og það var þá, í 300 þús. kr. og í einhverjum tilfellum var hækkunin úr 100 þús. kr. í 300 þús. kr. --- þarna virðist hæstv. dómsmrh. hafa heimild til þess að hækka þessar greiðslur --- sem mér sýnist nú að sé ekkert annað en skattlagningarvald eða vald til þess að ákveða fjárhæð sekta --- með reglugerðarheimild, en hæstv. fjmrh. þarf að leita eftir því að fá lagaheimild til þess að fara sambærilega leið, þ.e. að hækka sektir vegna ákvæða í tollalögum úr 75 þús. kr. í 300 þús. kr.

Á því hefði ég viljað fá frekari skýringu hvort þetta sé eðlilegt því að ég tel ekki eðlilegt að hæstv. dómsmrh. hafi þessa heimild án þess að hún hafi stoð í lögum, sem ég get ekki séð að hún hafi eftir að hafa farið yfir þetta.

Í annan stað velti ég fyrir mér hvernig þessar fjárhæðir innbyrðis eru ákveðnar vegna þeirra mála sem upp koma og kalla á að það sé sektað í. Þarna er einhver rammi sem hæstv. dómsmrh. hefur, allt upp að 300 þús. kr. vegna ýmissa brota, og með þessu frv. er verið að heimila tollstjóra að ljúka máli með sekt sem hægt er að hafa allt að 300 þús. kr., sjálfsagt eftir því hver brotin eru.

Herra forseti. Ég hefði nú haldið að þegar slík heimild er fengin með lögum upp að ákveðinni, tiltekinni fjárhæð þá hefði átt að gefa út reglugerðir um það í hvaða tilvikum heimilt sé að sekta miðað við tiltekið brot, en að þetta sé ekki alfarið á hendi viðkomandi aðila eins og tollstjóra í þessu tilviki sem við fjöllum hér um og hins vegar lögreglustjóra. Eða hvernig er þessu háttað? Veit hæstv. ráðherra hvernig með svona heimildir er farið? Eitthvað hlýtur að vera lagt til grundvallar þeim sektum sem ákveðnar eru í hverju tilviki fyrir sig og 300 þús. kr. sekt er nokkuð há sekt þannig að maður veltir fyrir sér hvaða forsendur búi þar að baki, hvaða athuganir liggi þar að baki, við hvað sé miðað. Þetta, herra forseti, vildi ég gjarnan fá fram. Ég geri út af fyrir sig ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra geti svarað þessu hér við umræðuna en mun kalla eftir því við meðferð málsins í efh.- og viðskn., þ.e. annars vegar af hverju fjmrh. þurfi lagastoð til þess að fara með þessar heimildir fyrir tollstjórann upp í 300 þús. kr. en dómsmrh. virðist einungis styðjast við reglugerð til þess að fara með þessar heimildir upp í 300 þús. kr., ef ég skil málið rétt. Vera má að á þessu sé einhver önnur skýring.

Ég fagna því sem hér er gert varðandi hitt meginákvæði frv., þ.e. niðurfellingu tolla á barnabílstólum sem er öryggisbúnaður fyrir börn og sjálfsagt er og eðlilegt að ekki sé lagður tollur á þá. Reyndar finnst mér líka að ekki eigi að leggja skatta á þá. Er það ekki rétt, herra forseti, og ég spyr hæstv. ráðherra að því, að af þessum barnabílstólum hafi ríkið ákveðnar tekjur t.d. í formi virðisaukaskatts? Þegar um svona öryggisatriði er að ræða finnst manni nú að það eigi að afnema líka virðisaukaskattinn af barnabílstólum sem eru öryggistæki, að ríkisvaldið eigi ekki að hafa af þessu tekjur vegna þess að barnabílstólar eru öryggistæki. Þetta er dýr vara sem á ekki að vera að skattleggja þannig að allir, líka þeir sem hafa ekki mikla peninga milli handanna, geti keypt sér slík öryggistæki sem barnabílstólar eru.

Þetta minnir mig á annað frv. sem við erum að fjalla um og snertir breytingar á virðisaukaskattslögum. Við erum með það til meðferðar í efh.- og viðskn. Þar liggur nú fyrir umsögn fjölskylduráðs um það mál og fjölskylduráð á lögum samkvæmt að vera stjórnvöldum til halds og trausts og ráðgjafar um öll málefni sem snúa að fjölskyldunni. Í umsögn fjölskylduráðs um það mál, virðisaukaskattslögin sem eru fyrir efh.- og viðskn., er lagt til að afnema virðisaukaskatt af vöruflokkum sem snerta börn, þ.e. að virðisaukaskattur verði ekki tekinn af vöruflokkum eins og bréfbleyjum, barnabílstólum, barnavögnum og kerrum, eins og þar er nefnt. Einmitt af því tilefni að fjölskylduráð á nú að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í þessu efni þá óskaði ég eftir minnisblaði frá fjmrn. um hvað það kostaði að lækka eða afnema virðisaukaskattinn af þessum hlutum eins og barnavögnum, kerrum, barnabílstólum og bréfbleyjum. Það var um 87 millj. kr. sem það kostaði að afnema virðisaukaskattinn á þessum brýnu hlutum. Ég held að fjármagni væri mjög vel varið ef sú leið yrði farin að afnema virðisaukaskatt af þessum hlutum sem svo miklu máli skipta fyrir barnafjölskyldurnar í landinu.

Herra forseti. Í þeirri sundurliðun kemur fram að það að afnema virðisaukaskatt af barnabílstólum og vegna annarra sæta sem þeir töldu sig ekki geta sundurliðað frekar í fjmrn., kostar um 8,5 millj. þannig að ég held að þarna sé nú ekki um verulegar upphæðir að ræða eða mikið í húfi fyrir ríkissjóð þó að það yrði skoðað líka að afnema virðisaukaskatt af barnabílstólum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki tilbúinn að skoða það í ljósi þess að við erum að fjalla hér um mikið öryggistæki að afnema einnig virðisaukaskattinn af barnabílstólunum til þess að verðlagningin á þeim geti verið slík að frekar verði mögulegt að allar fjölskyldur með ung börn geti fest kaup á slíkum stólum.

Þessu vildi ég nú koma á framfæri, herra forseti, við þessa umræðu og mun auðvitað taka þau atriði sem ég hef hér nefnt upp í efh.- og viðskn. En að sjálfsögðu mundi það greiða fyrir málinu ef hæstv. ráðherra tjáði sig um þau efnisatriði sem ég hef nefnt í þessari umræðu.