Lyfjalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 20:05:01 (5947)

2002-03-11 20:05:01# 127. lþ. 94.15 fundur 601. mál: #A lyfjalög# (rekstur lyfjabúða o.fl.) frv. 63/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[20:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða breytingu á lyfjalögunum nr. 93/1994, með síðari breytingum. Hæstv. ráðherra hefur farið yfir helstu ákvæðin í frv. Í vetur fór hv. heilbr.- og trn. einmitt í heimsókn til Lyfjastofnunar til að kynna sér starfsemina þar og þar var farið yfir þessa þætti. Eftir þá heimsókn er ég nú sannfærð um að það er orðið nokkuð brýnt að gera þær breytingar á lögunum sem hér eru lagðar til. Það er nauðsynlegt að lögin verði í takt við tímann eða takt við þá þróun sem hefur orðið í rekstri lyfjabúða. Sömuleiðis, eins og við vitum, hefur reksturinn breyst að því leyti að lyfjaverslanir eru á höndum færri eignaraðila og sömuleiðis er opnunartíminn mjög langur. Auðvitað þarf að taka tillit til þess í lögunum. Meðal annars vegna þess er þörf á því að skýra betur túlkun á lögunum um fjölda starfsmanna. Þegar breytingin var gerð á lögunum árið 2000 kom það mjög ákveðið fram í heilbr.- og trn. að vilji væri fyrir því að a.m.k. tveir lyfjafræðingar væru við afgreiðslu og jafnvel fleiri. En það virðist ekki hafa verið nógu skýrt í þeim lögum og því miður hefur verið nokkuð um það að lyf hafi verið ranglega afgreidd í lyfjaverslunum, sérstaklega á annatímum. Auðvitað þarf að koma í veg fyrir að slíkt gerist og tryggja að nægt starfsfólk sé til staðar til að sinna afgreiðslu svo vel sé.

Einnig er hér tekið á ákvæðinu um auglýsingar. Það hefur einnig verið rætt alloft og hvað eftir annað tekið upp í nefndinni. Við höfum velt því fyrir okkur hvernig við ættum að taka á því og hvort ekki væri hægt að breyta því ákvæði. En hér er sem sagt komin breyting í þessu frv. um auglýsingarnar. Ég geri mér ekki alveg fulla grein fyrir því hvort akkúrat þessi orðalagsbreyting nái því markmiði sem við höfum rætt að þurfi að koma fram, þ.e. að í staðinn fyrir orðalagið ,,hafi áhrif á líkamsstarfsemi`` komi ,,lagi eða breyti líffærastarfsemi``. Við þurfum að skoða það í nefndinni. En það er alveg ljóst að orðalagið sem er í lögunum í dag er allt of þröngt og hefur komið í veg fyrir auglýsingar sem eru alveg sjálfsagðar, t.d. ,,mjólk er góð`` o.s.frv.

Varðandi 5. gr., þ.e. dagsektarákvæðin, þá er verið að færa Lyfjastofnun þarna verkfæri til að sinna eftirlitshlutverki sínu betur. Ég tel sjálfsagt að bæta þessu ákvæði við lögin þannig að Lyfjastofnun geti gripið til fleiri aðgerða en nú þegar lögin eru brotin.

Hæstv. ráðherra lagði til og taldi mikilvægt, herra forseti, að þetta frv. færi í gegnum nefndina fljótt og vel. Ég geri ekki ráð fyrir að mikið sé því til fyrirstöðu nema þá að þar eru ýmis önnur mál fyrir sem þyrftu líka að komast áfram. Ég vil minna á að t.d. þingmannamál hafa ekki fengið umfjöllun eða verið afgreidd úr þessari nefnd, mál sem eru mjög brýn líka. Engu að síður get ég ekki séð annað en að þetta sé mál sem ætti að geta fengið breiða og góða afgreiðslu í nefndinni og mun ég leggja mitt af mörkum til þess. Þó vil ég halda því til haga að ég tel fulla ástæðu til þess að fleiri málum verði sinnt og að fleiri mál fái afgreiðslu en aðeins stjórnarfrv.

Ég minni líka á að ekki er langt eftir af þinginu og þetta mál kemur mjög seint fram. En ég mun alla vega ekki láta það hamla því að ég leggi mitt af mörkum til þess að málið nái fram að ganga.