Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:31:06 (5995)

2002-03-11 22:31:06# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:31]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér ofbýður þegar hæstv. iðnrh. setur þá skoðun sína fram hér að við hv. þingmenn gerum of mikið úr þessu máli, og það sé aðskilið frá Símanum. Ég vil bara spyrja hæstv. iðnrh. hvort hún geri sér ekki grein fyrir því að þeir hv. þm. sem hafa úttalað sig í dag eru að kalla eftir pólitískri stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar einkavæðingarmál á þessum stofngrunnþjónustufyrirtækjum landsins. Auðvitað er þetta hápólitískt mál og varðar öll fyrirtæki sem eru í svipaðri stöðu og Landssíminn, eins og Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins.

Telur hæstv. ráðherra virkilega ekki ástæðu til þess að staldra við og skoða stöðuna í ljósi síðustu atburða eins og menn hafa hvatt til í dag? Ég fullyrði að þjóðin er rasandi yfir því hvað hefur verið að gerast á síðustu dögum, tveir aðalfundir í dag þar sem flett er ofan af hlutum sem okkur öllum hlýtur að mislíka. Verið er að kalla eftir því í umræðunni að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hvort ana eigi áfram með Rarik á sama hátt og gert hefur verið með þau fyrirtæki sem okkur misbýður öllum hvernig búið er að fara með.