Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:34:55 (5997)

2002-03-11 22:34:55# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:34]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. kemur hér með aldeilis ófullnægjandi svar. Auðvitað er þetta pólitísk lína sem öll ráðuneytin keyra. Og það er alveg óásættanlegt fyrir okkur, hv. þm., að hver og einn ráðherra geti bara komið og sagt: Þetta er mitt mál, ég keyri þetta svona, þetta er á mínu valdsviði, ég fer með peninga ríkisins af ráðdeild og hagsýni og þetta fer ekki svona hjá mér ... (Gripið fram í: Og verð nísk.) og verð nísk. (Gripið fram í: Það er ekki skammtað ...)

Hæstv. ráðherra verður að svara því hvort í grundvallaratriðum sé ekki verið að fylgja stefnu sem mótuð hefur verið fyrir öll ráðuneyti varðandi einkavæðingu grunnþjónustu. Ef svo er, telur ráðherrann ekki að í ljósi síðustu atburða, tveggja aðalfunda í dag, sé ástæða til að staldra við, hætta við þessi einkavæðingaráform og taka nýjan kúrs? Um meira er ekki verið að biðja að svo komnu máli. Hv. þingmenn hafa marglýst því yfir að þeir vilja að þessi stefna verði tekin.