Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 23:35:50 (6002)

2002-03-11 23:35:50# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[23:35]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur nú farið fram umræða um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Áður en ég hef ræðu mína, virðulegi forseti, vil ég lýsa megnri óánægju með að þingforsetinn hafi ekki orðið við því að fresta þessari umræðu. Þó hefur verið tilefni til þess. Ráðherrar eru ekki viðstaddir, mjög fáir þingmenn í salnum þó svo mikilvægt mál sé til umræðu. Eiginlega er það ekki boðlegt fyrir þjóðina að menn skuli ekki einhenda sér í að ræða slíkt stórmál frá grunni, sérstaklega í ljósi þess að einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar, á svo stórum skala sem hér er um að ræða, hafa gjörsamlega farið út um þúfur og eru eins og hæstv. iðn.- og viðskrh. ýjaði að í dag, algjör skandall. Þjóðin hefur upplifað það í dag og engan veginn hægt að sætta sig við það. Þess vegna höfum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sett fram þá skoðun okkar og tilmæli til hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra að þessi einkavæðingarlest verði stöðvuð, menn nái áttum, taki nýjan kúrs og skoði stöðuna upp á nýtt. Það er alveg bersýnilegt að hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert vald á þessum málum. Skandall eftir skandall. Þjóðinni og okkur hv. þm. er gjörsamlega misboðið hvernig til hefur tekist.

Hæstv. iðnrh. ætti að taka því fegins hendi að gera hlé á þessari umræðu og ræða þessi mál í nýju ljósi. Eins og margir hv. þm. hafa sagt hér dag ætti að stöðva þessi einkavæðingaráform um sinn og skoða stöðuna eins og heiðursmanna er siður þegar þeir átta sig á því að þeir hafi farið offari í málum. Ég held að allir átti sig á því að þannig er staða mála hér í dag, því miður. Þetta er stórmál. Hér er verið að fjalla um grunnþjónustufyrirtæki, ríkiseignir upp á milljarða króna, sem á að gambla með. Í krafti reynslunnar gerir þjóðin sér grein fyrir því hvar málin lenda, hjá örfáum mönnum sem leika sér eins og fílar í postulínsbúð að eignum ríkisins. Þeim er gefið tækifæri til þess í skjóli valdhafanna sem engan veginn hafa tök á atburðarásinni og geta ekki stjórnað því hvernig fram fer, því miður.

Við höfum hneykslast á því, Íslendingar, eins og margir aðrir Vesturlandabúar, hvernig farið hefur verið með ríkiseignir í austantjaldslöndunum. Þá voru náttúrlega Rússar nefndir til sögunnar. Þar var á örskömmum tíma komið á nýrri valdastétt. Ég vil kannski ekki taka mér í munn hvað hún er kölluð núna, Rússarnir sjálfir kalla þessa valdastétt ,,Ný-Rússana`` fólk með fullar hendur fjár sem komst yfir eignir ríkisins á örskömmum tíma. Við á Vesturlöndum höfum kallað þessa valdastétt mafíuna. Ég skal láta kyrrt liggja mafíuna í Rússlandi. Ég skal láta kyrrt liggja hvað fólki finnst um stöðuna hér. Ég skal láta það kyrrt liggja. En það er ekki eðlismunur á því sem er að gerast, það er stigsmunur. Menn fara offari í þessum málum og sjást ekki fyrir, vegna þess að umgjörðin, eins og ég segi, ætli menn sér að gera þetta, er engan veginn á þann hátt að ásættanlegt sé fyrir nokkurn mann.

Svo það fari ekki á milli mála þá erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði algjörlega á móti því að einkavæða grunnþjónustuþætti samfélagsins. Þar er rafmagnsframleiðsla og dreifing ofarlega á blaði. Við viljum ekki hlutafélagavæðingu. Við viljum hafa dreifinguna í félagslegum rekstri og umsýslu. Við bentum á, í umræðunni um raforkumálin og fórum fram á það þráfaldlega í ræðum, riti og tillögum að við fengjum undanþágu vegna sérstöðu okkar í raforkumálum í þessu landi varðandi tilskipun Evrópusambandsins um nýskipan orkumála.

Allir sem ég hef talað við telja að það hefði verið tiltölulega auðvelt fyrir okkur að fá þessa undanþágu vegna þess að hér er um algjörlega einangrað raforkukerfi að ræða sem byggt er upp miðað við okkar þarfir. Tilskipun Evrópusambandsins tekur engan veginn á okkar málum. Hún beinist að vandamálum sem þarf að leysa í Evrópu, þar sem orkukerfi Evrópusambandslandanna var með 20% yfirframleiðslu og nýskipan þeirra í raforkumálum byggist að verulegu leyti á hugsjóninni um að fá betri nýtingu í raforkukerfi Evrópu. Við eigum enga samleið með því stóra kerfi. Það er eðlilegt að þau lönd í Evrópu sem liggja saman og hafa að miklu leyti samtengt orkukerfi sín hugsi málin upp á nýtt til að koma á hagræðingu og þá sérstaklega sparnaði í orkukerfinu. Þessu var ekki til að dreifa hér.

Nú er það svo að vegna sögu sinnar eru Rafmagnsveitur ríkisins að stofni til að langmestu leyti dreifiveita. Það er á sögulegum grunni vegna þess að árið 1965 urðu þáttaskil í sögu raforkumála landsins og Rafmagnsveitnanna með setningu laga um Landsvirkjun. En eins og kunnugt er þá er Landsvirkjun stofnuð til þess að geta stuðlað að orkufrekum iðnaði í landinu. Á árinu 1967 voru raforkulögin endurskoðuð við samþykkt orkulaga á Alþingi. Með þeim voru gerðar ýmsar meiri háttar breytingar í stórum þáttum raforkulaganna. Sérstaklega þeim sem tengdust rannsóknum, framkvæmdum í virkjunarmálum og hagnýtingu jarðvarma eða jarðhita. Með orkulögunum var einnig gerð sú breyting að Rafmagnsveitur ríkisins og héraðsveiturnar voru sameinaðar í eitt fyrirtæki sem gert var að sjálfstæðu fyrirtæki og heyrði stjórn þess undir ráðherra sem færi með orkumál. Þetta er auðvitað algjör sérstaða Rafmagnsveitnanna. Rafmagnsveiturnar eru settar á laggirnar í þessum breytingum frá 1967. Það fyrirtæki er í raun skilið eftir í þessum endurbótum eða endurskipulagningu með litla sem enga framleiðslu. Það er ekki fyrr en Lagarfossvirkjun kemur inn löngu seinna að Rafmagnsveiturnar fara að framleiða örlítið af þeirri orku sem fyrirtækið dreifir.

Rafmagnsveitur ríkisins framleiða núna um 19 megavött á eigin vegum sem er undir 10% af því rafmagni sem veiturnar dreifa. Auðvitað er sérstaða þessa fyrirtækis algjör vegna þess að framleiðslutækin, virkjanirnar, sem settar voru í púkkið hjá Landsvirkjun voru nánast öll þau framleiðslutæki sem þá voru til í landinu. Rafmagnsveitur ríkisins þyrftu að öllum líkindum að byggja virkjanir í kringum 200 megavött til að vera sjálfum sér nógar um rafmagnsframleiðslu.

[23:45]

Rafmagnsveitur ríkisins standa fyrir orkudreifingu í öllu dreifbýlinu hér á landi eins og menn vita en Orkubú Vestfjarða sér dreifingu á orku í dreifbýli og þéttbýli á Vestfjörðum. Það er sérstaða Rafmagnsveitna ríkisins að þær hafa þurft að meira eða minna leyti upp á eigin spýtur á undanförnum árum, eða síðan orkulögunum var breytt 1967, að standa straum af því með jöfnun hjá sér að dreifa rafmagni til hins svokallaða félagslega þáttar, en það er hið algjöra dreifbýli þar sem í raun borgar sig ekki að dreifa rafmagni og þarf að niðurgreiða það. Það er sérstaða Rafmagnsveitnanna að þær hafa þurft að selja orkuna á yfirverði til þéttbýlisstaðanna sem eru á svæði Rafmagnsveitna ríkisins til þess að geta staðið straum af þessum kostnaði.

Þannig má segja að að miklu leyti hafi stærstu þéttbýlisstaðirnir á Íslandi verið fríaðir við að standa straum af hinum félagslega þætti. Að vísu hefur endrum og eins komið framlag úr ríkissjóði til Rafmagnsveitna ríkisins þegar illa hefur gengið. Það ber að nefna hér. En þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess alveg frá 1967 að raforkuverð í dreifbýlinu hefur verið miklu hærra en alls staðar annars staðar í landinu.

Það má taka Orkubú Vestfjarða með þar inn. Rafmagnsveitur ríkisins hafa þurft að selja rafmagn á miklu hærra verði fyrst og fremst vegna þess að Rafmagnsveiturnar hafa ekki haft nema hlutfallslega lítið af eigin framleiðslu til þess að keyra inn á kerfið. Þvert á móti hafði Orkubú Vestfjarða um 40% af eigin afli í forgangsorku þannig að þeir gátu þess vegna verið með lægra verð inn á sínu kerfi.

Það sem skortir á við þessa umræðu og verður þess valdandi að ekki er hægt að ræða þessi mál af neinu viti er að við vitum ekkert enn þá hvernig hið nýja raforkulagafrv. lítur út. Það er alveg órætt. Hæstv. ríkisstjórn og hæstv. iðnrh. hafa ekkert komið fram með það enn hér í þinginu og því síður í hv. iðnn. Hvernig í ósköpunum ætla menn að taka á þessum málum heildstætt og fá eitthvert vit í þessa hluti þegar allt virðist tekið í öfugri röð? Auðvitað eigum við að tala um hina stóru umgjörð áður en við förum að ræða um breytingar á heilu fyrirtækjunum sem inn í þessari umgjörð eiga að vera. Það gefur alveg augaleið. Við vitum t.d. ekkert enn þá hvernig hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstjórn hafa hugsað sér að taka á hinum félagslega þætti í dreifbýlinu þar sem ekki borgar sig að dreifa rafmagninu og það þarf jöfnun.

Við Íslendingar þurfum nú ekki að finna upp hjólið. Í löndunum í kringum okkur er mikið dreifbýli. Það eru farnar þrjár leiðir til þess að standa straum af orkudreifingu í dreifbýli. Sumir hafa sett framleiðslugjald á orkuframleiðsluna. Það er ein leiðin. Á hvert framleitt kílóvatt eða hvert framleitt megavatt er þá greitt í jöfnunarsjóð til þess að standa straum af kostnaði við raforkudreifingu í dreifbýli. Sumir hafa farið skattaleiðina með því að lækka skatta, t.d. söluskatt. Sumar þjóðir hafa farið blöndu þessara leiða með framleiðslugjaldi og niðurfellingu skatta. Hægt er að hugsa sér það. Síðan er náttúrlega hægt að fara þriðju leiðina, þ.e. að vera með bein framlög úr ríkissjóði til þess að greiða niður fyrir dreifbýlisveiturnar.

Það er algjörlega órætt hvernig með þessa hluti skuli fara. Auðvitað hefur það gríðarlega þýðingu t.d. fyrir Landsvirkjun ef menn hafa þær hugmyndir að leggja á framleiðslugjald. Stóriðjan gerir sig nú á 80% raforkuframleiðslunnar í framhaldi af ákvörðun t.d. um Kárahjnúkavirkjun og því er slegist um hvern einasta eyri hvað varðar verð rafmagnsins. Það getur verið afgerandi fyrir t.d. Landsvirkjun sem fyrirtæki hvort hún standi frammi fyrir pólitískri ákvörðun um að leggja á framleiðslugjald. Nágrannaþjóðir okkar eru með þetta. Þá verður Landsvirkjun komin algjörlega í nýtt umhverfi.

Virðulegi forseti. Þetta verður að ræða heildstætt. Við getum ekki tekið þessi mál algjörlega svona úr sambandi.

Síðan er annað atriði sem er auðvitað bara pólitískt mál og það er krafa sveitarfélaganna um eignarhlut ef til hlutafélagavæðingar kemur. Eins og manni sýnist þá er nú jafnvel í frv. krafa sveitarfélaganna um eignarhlut óbeint virt, því í 7. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Halda skal ársfund á vegum hlutafélagsins fyrir júnílok ár hvert. Rétt til setu á ársfundinum hafa eftirtaldir aðilar:`` --- Þarna eru viðurkennd tengsl.

,,1. Stjórn hlutafélagsins.

2. Aðrir fulltrúar hlutafélagsins valdir af forstjóra þess.

3. Tveir fulltrúar tilnefndir af iðnaðarráðherra.

4. Einn fulltrúi tilnefndur að fjármálaráðherra.

5. Einn fulltrúi frá hverri héraðsnefnd á orkuveitusvæði hlutafélagsins.

6. Einn fulltrúi frá hverri bæjarstjórn þeirra kaupstaða á orkuveitusvæði hlutafélagsins sem ekki eru aðilar að héraðsnefndum.

7. Einn fulltúi frá hverri almenningsveitu sem kaupir orku af hlutafélaginu.``

Í 7. gr. er hæstv. iðnrh. að segja berum orðum að sveitarfélögin og héraðsnefndirnar eigi beina aðkomu að þessu fyrirtæki. Það er mitt álit. Auðvitað er það bara pólitísk ákvörðun hvort hæstv. ríkisstjórn, hæstv. iðnrh. og hv. Alþingi viðurkenni það og vilji að sveitarfélögin eigi sinn hlut ef breytt verður um form á þessu félagi. Sveitarfélögin telja sig eiga þarna gríðarlegan hlut, sérstaklega þéttbýlissveitarfélögin úti á landi, bara í krafti þess að vegna uppsetningar Rariks frá 1967 hafi þéttbýlissveitarfélögin á orkuveitusvæði Rariks í raun borgað miklu hærra orkuverð en efni stóðu til vegna þess að Rarik var sjálft látið bera kostnað af félagslega þættinum á svæðunum þar sem í raun borgaði sig ekki að dreifa rafmagninu nema með framlögum. Framlögin komu bara frá þessum þéttbýlissveitarfélögum á Rariksvæðunum en ekki frá öðrum landsmönnum. Þetta er auðvitað í hæsta máta ósanngjarnt.

Við höfum hliðstæðu við svona mál hvað varðar sveitarfélögin þegar sveitarfélögin fengu sinn hlut t.d. í Brunabótafélagi Íslands þegar tilskipun kom um að ólöglegt væri að vera með það á opinberum vettvangi, í opinberum rekstri, þ.e. að vera með brunatryggingar af hálfu sveitarfélaganna. Þá fengu þau hlut í þessu félagi og gátu selt hann eða fengu arðgreiðslur. Nýskipan í þessum málum frá hv. Alþingi byggist bara á pólitískri ákvörðun að mínu mati um það hvernig með skuli fara ef menn eru inni á því að hlutafélagavæða skuli þetta fyrirtæki.

Í bollaleggingum um þetta fyrirtæki er auðvitað eins og endranær ekkert talað um stöðu starfsmanna sem hlýtur þó að vera stórt mál fyrir þá sem vinna við þetta fyrirtæki um allt land. Munum við ekki flest álíta að þróunin verði svipuð og í öðrum fyrirtækjum sem við höfum verið að hneykslast yfir þróuninni hjá núna undanfarið? Ef að líkum lætur verða gríðarlegar launagreiðslur til toppanna, gríðarlegar launagreiðslur til stjórnendanna en hagræðing og sparnaður hjá þeim sem lægst hafa launin hjá viðkomandi fyrirtæki. Ætli það verði ekki þróunin eins og við höfum horft á hana t.d. hjá Landssímanum núna?

Virðulegi forseti. Við þingmenn getum ekki sætt okkur við þessa málsmeðferð alla. Ég set fram kröfu enn og aftur um að umræðunni um þetta mál verði frestað og að við höldum henni frekar áfram á nýjum degi. Ég held að við þurfum svo sannarlega á því að halda. Ég árétta enn og aftur að það er krafa okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að öllum frekari áformum hæstv. ríkisstjórnar um einkavæðingu fyrirtækja í almannaþjónustu, grunnþjónustu í þessu landi, verði slegið á frest og þau skoðuð algjörlega upp á nýtt.