Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 13:49:12 (6013)

2002-03-12 13:49:12# 127. lþ. 95.91 fundur 394#B greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Alveg er með ólíkindum hvað það vefst fyrir stjórnvöldum að taka á þessum brýna vanda. Það kostar einungis 10--20 millj. að leysa brýnasta vandann, og þarna er neyðarástand ríkjandi. Það er ekki verið að spara nokkurn skapaðan hlut, herra forseti, með því að veita ekki þetta fjármagn til stöðvarinnar. Þvert á móti er það dýrara fyrir samfélagið allt að taka ekki á vandanum.

Það er alveg ljóst að verkefni Greiningarstöðvarinnar munu fara vaxandi á næstu mánuðum og árum, og ég nefni bara sem dæmi að fjöldi þeirra sem greinast með einhverfu hefur þrefaldast á stuttum tíma. Ég tel afar brýnt að félmn. taki málið aftur upp og finni á þessu heildarlausn í samráði við stjórnvöld, og ég skora á hæstv. starfandi félmrh. að vinna að því með ríkisstjórninni að leysa þetta mál. Það vefst ekki fyrir stjórnarflokkunum að setja 170 millj. í raunaukningu til sinna eigin aðalskrifstofa en þegar kemur að því að leysa vanda þeirra sem þurfa mjög á því að halda, eins og börn sem þurfa á þjónustu Greiningarstöðvarinnar að halda, er verið að kasta 10--20 millj. á milli stjórnvalda, hvort eigi að ráðstafa þessum peningum sem viðbótarheimild á fjárlögum. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka á þessu máli vegna þess að það þolir enga bið, og ég tel víst að félmn. eigi að taka málið upp aftur. Það verður að leysa þetta mál til frambúðar, finna á því framtíðarlausn í samráði við þingið og stjórnvöld. Annað er ekki hægt. Það neyðarástand sem nú ríkir í þessum efnum í Greiningarstöðinni er engum bjóðandi.