Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:41:20 (6032)

2002-03-12 14:41:20# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta frv. sem hér er til 1. umr. er um breytingar á gildandi lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl. sem eru að stofni til frá 1969. Þetta frv. er flutt samhliða frv. til laga um landgræðslu og ég tek undir með hæstv. ráðherra landbúnaðarmála að það var allítarlega rætt hér í síðustu viku. Þetta frv. er í raun aðeins flutt til samræmingar við það frv. til laga ef ég hef skilið málið rétt.

Ég lít náttúrlega svo á að við munum fara mjög nákvæmlega yfir málið í hv. landbn. og leiða þar fram alls kyns vitringa sem geta frætt okkur um ítölu þannig að við þekkjum betur til sjálf. Ég get t.d. upplýst það hér að ég hef aldrei orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að ríða um landið með hæstv. landbrh. --- ekki enn --- til að skoða ástand afrétta og athuga hvernig þar háttar til með beit. En ég vona að tækifæri gefist til þess á næstu missirum að bæta úr því.

Það er fært sem rök fyrir því að breyta þessum lögum að hin umrædda ítala sem hefur verið í lögum, hafi verið mjög erfið í framkvæmd og mjög íþyngjandi fyrir búfjáreigendur og að sett hafi verið ítala í um tug afréttasvæða. Eftir því sem hér er sagt --- ég hef ekki aðrar heimildir til að styðjast við --- hefur þessi ráðstöfun ekki leitt til umbóta í gróðurvernd því ef slíkar umbætur hafi gerst yfirleitt þá hafi þær gerst eftir öðrum leiðum. Ég tek undir það, ef það er niðurstaða málsins að frá 1969 þegar þessi lög voru fyrst sett hafi þau ekki valdið þeim úrbótum sem til var stofnað, að kannski sé ástæða til að breyta þeim. En auðvitað verður þar farið með mikilli varúð og ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það þarf að fara mjög vel yfir þetta mál þannig að ekki sé verið að rasa um ráð fram og grípa inn í eitthvað, ef það er rétt sem hann segir að á einhverjum stöðum hafi þetta leitt til úrbóta. Það mun þá upplýst í hv. nefnd.

Samkvæmt þeim lögum sem nú gilda og eru frá 1965 um landgræðslu, fer Landgræðsla ríkisins með gróðureftirlit og er samkvæmt þessu frv. gert ráð fyrir að svo verði áfram og að sett verði upp sérstakt ferli úrbótaáætlana sem sömuleiðis verður farið yfir af mikilli nákvæmni í hv. nefnd. Áætlað er að þessar ráðstafanir komi í stað fyrrnefndrar ítölu. Ég verð að segja í ljósi þess að núgildandi lög hafa ekki valdið úrbótum að mér finnst mjög gott að taka þetta til umræðu og gagngerrar endurskoðunar í hv. landbn. og athuga hvort kannski séu til einhverjar betri leiðir og gefst nú tækifæri til þess.

Það eru líka betri leiðir hér sýnist mér til þess að fylgja málinu eftir ef ekki er farið eftir ábendingum, þ.e. ef umráðamaður lands t.d. leggur ekki fram áætlun og fer ekki eftir slíkri áætlun sem Landgræðslan leggur fram þá er gert ráð fyrir því hér að lögregluyfirvöld geti framfylgt henni. Í athugasemdum við frv. er líka tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir að beita þurfi slíkum aðferðum oft. En það er greinilega gert ráð fyrir að þessar leiðir séu alla vega tiltækar. Það er því miður oft nauðsynlegt þegar lög eru sett að bent sé á skýrar leiðir til að framfylgja þeim ef fólk vill ekki hlíta þeim. Hér sýnist mér það vera gert. Hér kemur líka fram að ábyrgð umráðahafa lands sé með þessu frv. gerð mun skýrari en verið hefur áður í öðrum lögum.

En út af því sem hér hefur áður komið fram vil ég bara endurtaka að við munum auðvitað fara mjög vel yfir þetta mál, alveg frá orði til orðs og atriði til atriðis, í hv. landbn. og reyna að gera því sem allra best skil áður en við sendum það til 2. umr.