Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 15:07:55 (6039)

2002-03-12 15:07:55# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp í andsvar vegna fullyrðingar hv. þm. um að landinu væri að hraka. Ég tel að það sé alls ekki rétt. Orðið hafa gríðarlega miklar landbætur og mikið hefur áunnist í landgræðslumálum hér á landi undanfarna áratugi.

Þar sem rætt hefur verið hér um ítölu þá tel ég að ekkert í þessu frv. banni að hægt sé að hafa ítölu því að í a-lið 3. gr. frv. stendur að sveitarstjórnum sé skylt að fylgjast með ástandi gróðurs og jarðvegs á afréttum og heimalöndum og skulu þær hafa um það samráð við Landgræðsluna. Það er ekkert sem bannar það í rauninni. Ef sveitarstjórnirnar vilja geta þær verið með ítölu.

Eftir sumu því sem er inni í þessu frv. er starfað í dag, t.d. hvenær megi reka hverja búfjártegund á afrétt. Það hefur t.d. viðgengist í Rangárvallahreppi að aldrei hefur verið rekið á afrétt nema eftir tilmælum frá landgræðslustjóra um hvenær það sé óhætt eftir því hvernig afrétturinn er undir það búinn á hverjum árstíma.

Varðandi félagslegu aðgerðirnar þá tel ég að líka sé hægt að útvega hagabeit annars staðar til að draga úr upprekstri. Ég tel því að ekki sé mjög flókið að ráða úr þessu máli.