Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 15:36:37 (6044)

2002-03-12 15:36:37# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel áhyggjur hv. þm. af álögum á sveitarfélögin. Ég vil hins vegar taka fram að við erum að ræða um breytingu á lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Hvað varðar fjallskilin þá varða þau eingöngu bændur á lögbýlum sem greiða fjallskil. Þeir greiða fjallskil þó að þeir reki aldrei kind á fjall. Þetta er misjafnt eftir landshlutum. Sums staðar greiða þeir minna og þeir sem reka á fjall greiða þá álag á hverja kind.

Að sjálfsögðu hafa sveitarfélögin umráðarétt yfir afréttunum og verða því að taka þátt í því að líta eftir ástandi gróðursins á þeim svæðum því að það þarf að skoða svæðin, t.d. áður en rekið er á fjall. Það hlýtur á einhvern hátt að lenda á sveitarstjórnunum.