Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 16:11:30 (6055)

2002-03-12 16:11:30# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var skemmtileg vísa hjá hv. þm. og viðeigandi við umræðuna hér. Hv. þm. ræðir mikið um Landgræðslu ríkisins og ég fullvissa hann um að það eru engar annarlegar hvatir sem liggja að baki hvað þetta varðar. Landgræðslan gæti auðvitað heitið Landgræðslan í Gunnarsholti eða Landgræðsla þjóðarinnar. Það eru ekki bara frjálshyggjumenn sem komið hafa óorðið á ríkið. Það eru fremur kommarnir sjálfir, hvar sem þeir hafa verið í veröldinni. Þeir hafa sóst eftir að vera ríkið, að ríkið verði allt, ríkið verði hafið yfir fólkið og ríkið eigi alla hluti. Þeir hafa lagt auðug lönd í rúst með stjórnmálaskoðun sinni. Kommarnir eiga þannig sinn þátt í því hvernig farið hefur fyrir þessu göfuga nafni, ríkinu. Þeir hafa breytt því mikið blessaðir, hvort sem þeir voru rauðir eða rauðgrænir, hvar þeir voru í veröldinni.

Ég minnist þess samt sem áður þegar við unnum að lögunum --- til að gleðja hv. þm. í Vinstri grænum --- um Garðyrkjuskóla ríkisins að hann fékk að halda nafni sínu áfram, Garðyrkjuskóli ríkisins. Ég vona að í lok þessarar umræðu gleðji þetta hv. þm., að það fékk að haldast.

En Landgræðslan gengur orðið undir þessu nafni eins og hv. þm. nefndi, Landgræðslan eða Landgræðslan í Gunnarsholti. Það er verið að fylgja þeirri málþróun eftir. Hér stendur ekki til að koma aftan að neinum, háeffa hana eða selja, en hitt er annað mál að fleiri og fleiri bændur koma að verkefnum Landgræðslunnar. Það eru einir 600 bændur sem græða landið og áhugi fyrirtækja á að koma að þessu er mikill.