Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 16:23:22 (6059)

2002-03-12 16:23:22# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. landbrh. um að þjóðarsamstaða þurfi að vera um það hvernig við göngum landið okkar. Ég held að þetta sé það málefni sem við erum öll sammála um, þ.e. að það beri að ganga vel um landið og yrkja það á sjálfbæran hátt, eins og sagt er í dag, í staðinn fyrir að ganga á það með græðgi eins og við höfum séð gerast í veröldinni. Maðurinn hefur gengið stórlega á sköpunarverkið, eyðilagt það og ekki hugsað um afleiðingarnar eða komandi kynslóðir heldur bara um stundargróðann. Gott væri ef við gætum verið til fyrirmyndar í þeim efnum að byggja upp landið okkar hvað varðar gróðurinn og náttúrufar, að hlúa vel að náttúrunni og ganga vel um náttúru landsins.

Herra forseti. Ég vildi bæta því við í sambandi við það sem hæstv. ráðherra vék að hér áðan og ég þar á undan, að auðvitað eru þetta undantekningar sem ég er að ræða um þar sem hross eru látin vera í allt of litlum hólfum og beit er ekki næg fyrir þau. Ég er ekki mikill hestamaður og á ekki hross sjálfur. Engu að síður vil ég að farið sé vel með þau dýr.