Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:40:03 (6093)

2002-03-12 18:40:03# 127. lþ. 95.16 fundur 575. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (fiskiskip, varðskip, skemmtibátar o.fl.) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu minni þá er ekki einfalt mál að ná allsherjarniðurstöðu um þessi mál milli útvegsmanna og sjómannasamtaka. Ég tel eðlilegt að hv. samgn. kalli eftir umsögnum frá samtökum útvegsmanna og sjómanna og fái fram afstöðu þeirra. Ég hef átt viðræður við þessa aðila og hef leitað þeirrar leiðar sem hér er farin í þeirri von að sátt náist um frv. og þau lög sem afgreidd yrðu héðan frá þinginu.

Ég vil þess vegna ekki gefa neinar yfirlýsingar fyrir hönd annarra aðila. Það er niðurstaða samgrn. að frv. eins og það liggur fyrir feli í sér þá leið sem líklegust er til að ná þeim markmiðum að tryggja öryggi sjómanna og fiskiskipa. Það kæmi mér satt að segja mjög mikið á óvart ef sjómannasamtökin mundu leggast gegn þeirri leið sem hér er farin.