Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:44:05 (6222)

2002-03-19 13:44:05# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka undir að það eru auðvitað algerlega fráleit vinnubrögð að rífa þetta mál út úr þingnefnd við þessar aðstæður. Það sannar einu sinni enn að þetta mál er keyrt áfram með pólitísku valdboði og að vönduð fagleg eða þingleg vinnubrögð eru látin lönd og leið þegar það á við.

Ég geri líka miklar athugasemdir við þann málflutning hv. þm. Hjálmars Árnasonar að það sé nánast eins og formsatriði að Alþingi afgreiði frá sér lög um virkjanaröð. Er það þá hugsunin að Landsvirkjun hafi á sinni hendi á lager margs konar óskilyrtar virkjunarheimildir og geti án samhengis við tilteknar framkvæmdir ráðstafað orkunni úr þeim eins og henni sýnist, t.d. flutt orkuna úr Kárahnjúkavirkjun, ef hún verður byggð, suður á land? Er það þannig sem Alþingi vill ganga frá hlutunum? Það er sérkennilegt að heyra þingmenn koma hér upp og beinlínis mæla með því að afdrifaríkt þingmál af þessu tagi sé afgreitt í hangandi óvissu um undirstöðuatriði málsins. En það liggur fyrir. Það er líka merkilegt, herra forseti, að það er eins og menn þurfi að endurtaka sömu mistökin, ganga sömu svipugöngin, reglulega með nokkurra ára millibili. Muna menn ekki eftir biðinni eftir álveri við Eyjafjörð sem aldrei kom, álveri á Keilisnesi sem aldrei kom og Eyjabakkavirkjuninni sem aldrei kom? Vilja menn enn berja höfðinu við steininn?

Herra forseti. Það er lágmarkskrafa að ekki verði hreyft frekar við þessum málum fyrr en þau skýrast. Í Fréttablaðinu í dag segir aðstoðarmaður iðnrh. að óvissunni verði að linna, að það verði að fara til Norsk Hydro annaðhvort formlega eða með ráðherraviðræðum og fá botn í málið. En Alþingi ætlar að láta bjóða sér það að sulla þessu áfram út úr þingnefnd og kannski lengra í þessari óvissu.

Herra forseti. Það er lágmarkskrafa, og það snýr að virðulegum forseta og forsætisnefnd, að þetta mál komi ekki á dagskrá, ekki frekar til umræðu, fyrr en hlutirnir hafa skýrst.