Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:43:01 (6242)

2002-03-19 15:43:01# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Mér finnst ekki hafa verið gefnar trúverðugar skýringar af hálfu hæstv. samgrh. í þessu máli. Ef ég tók rétt eftir, herra forseti, þá sagði hæstv. samgrh. að stjórnarlaunin hefðu verið ákveðin út frá þeim verkum og kostnaði sem greiddur hefði verið til síðustu stjórnar. Og það væri betra fyrirkomulag að ákvarða launin í einu lagi, enda kæmi þá ekki til annarra kostnaðargreiðslna eða neinnar verktöku, en tekið hefði verið tillit til fyrri kostnaðargreiðslna fyrrum stjórnarmanna. Svakalega væri það nú fínt ef þeir á vinnumarkaðnum, hinir almennu verkamenn, gætu bara fengið einhverja í lið með sér til að skrifa kostnaðarreikninga og síðan mundu þeir sem við þá mundu semja ákveða að taka mið af þeim kostnaðarreikningum við að hækka laun þeirra og menn sætu bara uppi með það að þannig tvöfölduðust launin og að því mundu menn búa um nokkra framtíð.

Ég hlýt að ítreka þá spurningu til hæstv. samgrh. hvort það sem hér var gert og hann framkvæmdi hafi verið með fullu samþykki og umboði forsrh. ríkisstjórnarinnar því við erum hér að framkvæma stefnumarkandi ákvarðnir í launamálum. Hún eru vissulega ágætlega mönnuð þessi stjórn, en ég hygg að finna megi margar stjórnir bæði á vegum ríkisins og annarra sem eru ágætlega mannaðar og telja sig ekki eiga að vera lakar settar í launum.