Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 17:20:06 (6258)

2002-03-19 17:20:06# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[17:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er tvennt sem ég vil inna aðeins nánar eftir.

Það fyrra varðar vegáætlun og endurskoðun hennar. Ég heyrði ekki alveg upphaf ræðu hæstv. ráðherra en ég tók ekki eftir að hann kæmi inn á það sem ég geri hér að umtalsefni: Hvenær er þess að vænta að endurskoðuð vegáætlun verði lögð fyrir þingið eða tillögur um útdeilingu á þeim niðurskurði sem þar þarf að fara fram, ef marka má fjárlög, og jafnvel til viðbótar ef það verður tengt við minni tekjur af einkavæðingu og dregið sérstaklega og þar til viðbótar úr framkvæmdum af þeim sökum? Ég hef skilið það svo að þessa þyrfti að sjá stað í ákvörðunum um framkvæmdir á þessu ári og það hlýtur þá að vera keppikefli að það komi fyrir Alþingi fyrr en síðar.

Það seinna varðar skipan samgönguráðs. Mér fannst hæstv. ráðherra, ef ég tók rétt eftir svörum hans, ekki taka mikið undir hugmyndir um aðra samsetningu á því og það eru mér vonbrigði. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það virkilega svo að hæstv. ráðherra geti ekki hugsað sér neina breytingu, neinn af þeim valkostum eða möguleikum sem nefndir hafa verið um aðra samsetningu samgönguráðs? Fyrir það fyrsta og í fyrsta lagi þá, að það kæmi þverpólitísk skipan ráðsins, að við bættust fulltrúar þingflokka, eða þá í öðru lagi, nema hvort tveggja væri, að ráðið verði breikkað faglega, að til viðbótar þessum ágætu embættismönnum sem enginn er að beina spjótum að persónulega, kæmu fulltrúar t.d. umhverfismála, umferðaröryggismála, félags- og byggðamála og jafnvel rannsóknastofnana, þannig að þetta yrði breiðari dýnamískur vettvangur, faglega saman settur. Eða í þriðja lagi að ráðið verði hreinlega tekið út ef ekki er vilji til þess að stækka það eða breikka því að það er í raun vandséð að það þjóni miklum tilgangi að samgrn. fundi með þessum ágætu embættismönnum sínum sérstaklega undir þeim formerkjum að það heiti ráð. Það þarf ekkert að kalla það því nafni. Menn geta bara unnið málin saman án þess.