Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:02:17 (6272)

2002-03-19 18:02:17# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:02]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög undrandi á þeirri umræðu hjá hv. þm. þegar hann er að amast við samgönguráðinu, ekki síst með tilliti til þess að bæði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem er nú áhrifamaður innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, og einnig hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, hafa lagt til að fjölga í samgönguráðinu, í því samgönguráði sem hv. þm. Jón Bjarnason hefur mjög á hornum sér gagnvart. Það ber því ekki allt upp á sama daginn í þeim herbúðum.

En hvað um það. Ég held engu að síður að nauðsynlegt sé að tryggja með löggjöf að sjálfsögðu eins og hér er gert hvernig staðið skuli að samgönguáætlun og það gerum við m.a. með samgönguráðinu, með samgönguþinginu og starfi þess, en fyrst og fremst auðvitað á hinum pólitíska vettvangi þegar kemur hér í þingið. Hitt er allt saman undirbúningsvinna sem gert er ráð fyrir að sé unnin til þess að einfalda og auðvelda viðkomandi ráðherra hverju sinni að leggja fram áætlun fyrir þingið. En það er Alþingi sem á lokaorðið um afgreiðslu samgönguáætlunar. Ég minni hv. þingmenn á það, þar er sá vettvangur sem leggur síðustu hönd á, samgn. væntanlega, og síðan þingið.