Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:17:34 (6520)

2002-03-22 15:17:34# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að hv. þingmaður eigi að vera að ómaka sig upp í andsvör ef þetta er allt svo fráleitt eins og hv. þm. vildi vera láta. Það sem mér fannst heldur dapurlegt voru útúrsnúningar hv. þm.

Er með því að draga athyglina að því að sum störf eru dýrari í stofnkostnaði en önnur verið að leggjast gegn allri tæknivæðingu? Er það sambærilegt við það að Síldarvinnslan í Neskaupstað hefði ekki átt að vélvæðast? Á hún kannski að taka vélarnar úr skipunum? Sagði ég það kannski í ræðu minni? Hvers konar þvættingur er þetta?

Það sem ég er að benda á er að það er hægt að gera fleira en vinna í álverum. Það er t.d. hægt að nota ,,þetta hérna``, og margar þjóðir skapa mikinn auð með því að nota ,,þetta hérna``. Danir eru kannski besta dæmið. Af hverju er Bang & Olufsen stórveldi um allan heim og selur sig helmingi dýrara en öll önnur hljómflutningstæki? Það er af því að hönnunin er svo flott. Af hverju er Lego stórveldi um allan heim? Það er af því að Danir eru klókir hönnuðir og góðir markaðsmenn og þeir eru það fyrst og fremst með því að nota ,,þetta hérna``. Það er líka auðlind.

Málflutningur minn gekk út á að það eru fleiri möguleikar en álverin ein sem mér finnst menn hafa verið allt of blindir á.

Ég hef aldrei sagt að ekkert annað sé að gerast á Austurlandi. Það sem ég talaði um var hættan sem er því samfara að einblína svona mikið á einn hlut. Hún er til staðar hvað sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir segir. Og ég tel að hægt eigi að vera að ræða það málefnalega og áreitnislaust. Við þekkjum úr sögunni að oft hefur farið illa með menn að bíða og bíða árum saman í óvissu með væntingar um hið stóra sem svo aldrei kom. Það er þannig. Og ég held að í sjálfu sér þurfi ekki að rökstyðja það neitt frekar þó að mönnum sé sárt að viðurkenna það, og ég skil það vel í ljósi þessarar sögu eins og hún liggur fyrir.