Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 14:51:36 (6715)

2002-03-26 14:51:36# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hluti af hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar er fólginn í því að verðmyndun vöru spanni allt framleiðsluferli vörunnar algjörlega frá því að hugmyndin að vörunni kviknar, þangað til búið er að nýta hana og ganga frá öllum úrgangi sem hún myndar. Þannig má segja að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sé heimfærð á virkjanir á þann hátt að við verðum að reikna allan kostnaðinn inn í dæmið, þ.e. frá því hugmyndin að virkjuninni kviknar þangað til við erum búin að framkvæma allt og ganga þannig frá að land hafi skaðast sem minnst eða ekki neitt og hinir hagrænu þættir séu allir reiknaðir til enda. Það felur í sér skyldu sem stjórnvöldum er lögð á herðar varðandi það að setja umhverfiskostnaðinn inn í reiknidæmið. Því hefur verið haldið fram hér á Alþingi oftar en einu sinni, að ef umhverfiskostnaðurinn í Kárahnjúkadæminu væri reiknaður þar inn, þá yrði framkvæmdin aldrei arðbær. Sem sagt: Íslensku samfélagi ekki til hagsbóta.

Þetta eru staðreyndir málsins. Svona ber að fylgja hugsjóninni um sjálfbæra þróun. Þar reiknum við dæmin til enda en göngum ekki þannig á auðlindirnar að láta eins og þær séu í sjálfu sér ekki nein verðmæti. Við reynum að skoða allar okkar gjörðir á þann hátt að verið sé að hlífa lífríkinu eins vel og mögulegt er. Sannleikurinn er sá að hlutirnir verða að reiknast til enda, frá upphafi til enda, og það er stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar ekki að gera. Þar er gengið óhóflega á náttúrulegar auðlindir sem þýðir að komandi kynslóðir eiga ekki sama rétt eða sömu möguleika á að nýta þær eins og sú kynslóð sem ætlar að rífa þær í sig í dag.