Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:33:27 (6739)

2002-03-26 16:33:27# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:33]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held, miðað við þær aðstæður sem við búum við og öra þróun, að það gefi það okkur afskaplega lítið í aðra hönd í dag að til sé loforð þess efnis að hægt verði hugsanlega að uppfæra samninginn eða skoða uppfærslu hans eftir að stækkunarferlinu lýkur. Þær viðræður taka nú býsna mörg ár og síðan þurfa þjóðþing nýrra aðildarþjóða að staðfesta og þá fer umræða í gang. Hvað er hæstv. ráðherra að tala um mörg ár þar sem ekki verður hreyft við samningnum? Fróðlegt væri að vita hvað hæstv. ráðherra áætli að mörg ár líði þangað til farið verður að huga að uppfærslu þessa samnings.

Vissulega er mér kunnugt um þá samninga sem við höfum fullgilt og varða mansal, en jafnframt hafa komið fjöldamörg tilmæli frá Evrópuráðinu til aðildarríkja Evrópuráðsins um mansal (Gripið fram í.) og lagasetningu í þessum efnum. Afar miklu skiptir að við tökum þau hér til umræðu og að stjórnvöld a.m.k. skoði þau tilmæli sem þarna er um að ræða og þær breytingar sem hægt er að gera á einstökum lögum. Þessi tilmæli heyra undir nokkur ráðuneyti. Fram til þessa höfum við kannski ekki gert nóg af því að ræða þau tilmæli sem hafa verið sett fram að Evrópuráðinu, hvað þá framfylgja þeim innan einstakra ráðuneyta. Utanrrn. hefur vissulega verið langafkastamest í því en önnur ráðuneyti hafa afar lítið gert með þau tilmæli sem hafa komið frá Evrópuráðinu.