Samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:50:45 (6782)

2002-03-26 18:50:45# 127. lþ. 105.10 fundur 615. mál: #A samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl# (einkavæðing) þál. 23/127, SJS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu enda kem ég til með að hafa tækifæri til að skoða hana í þingnefnd. Ég vil eingöngu láta það koma fram að ég hef allan fyrirvara á um stuðning við þetta mál. Þetta er mjög sambærilegt, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gat um hér áðan, við mál sem við vorum með í höndunum í fyrravor um sams konar einkavæðingu eða fyrirtækjavæðingu alþjóðastofnunar, INMARSAT, sem annaðist fjarskipti um gervihnetti við skip á hafinu og þjónustu og eftirlit því tengt.

Ég vil leyfa mér að nota þá einföldu röksemdafærslu að spyrja: Til hvers að breyta fyrirkomulagi sem hefur gefist mjög vel? Ég veit ekki annað en að starf þessara stofnana, alþjóðastofnana --- þetta er í raun eins konar samstarfsvettvangur ríkisstjórna aðildarríkjanna --- hafi gefist mjög vel, að þetta hafi verið farsælt og skilað góðum árangri. Ég tel þetta því frekar en hitt vera dæmi um að menn séu búnir að missa stjórn á sér í einkavæðingarherleiðingunni og að það þurfi að troða þessari hugmyndafræði alls staðar inn, m.a. með þeim afleiðingum að það þarf að skipta upp ágætum stofnunum sem hafa haft á einni hendi tiltekið samstarf stjórnvalda, eftirlit með tilteknum hlutum og annast eftir atvikum vissa starfrækslu sem menn sjá þá möguleika á að koma í hendur einkaaðila með því að kljúfa þetta upp.

Er endilega öllum spurningum svarað þar með? Er það skilvirkt og hagkvæmt? Verður það til bóta? Ég er ekki viss um það. Menn lenda þá í vandræðum með ákveðna hluti sem snúa að ríkjum sem hafa notið sérstaklega góðs af þessu samstarfi og uppbyggingu iðnríkjanna sem hafa kostað þau kerfi sem hér hafa verið byggð upp og þess hefur ekki verið krafist að þróunarríki legðu kannski sitt af mörkum endilega í formi fjárfrekra framlaga til stofnkostnaðar. Þá þarf að fara að taka á því sérstaklega og um það er fjallað hér í greinargerðum.

Ég get, held ég, látið nægja tímans vegna hér að láta það koma fram að ég hef allan fyrirvara á um stuðning minn við þetta mál þó að mér sé auðvitað ljóst að í þessu tilviki eins og mörgum sambærilegum standa menn svo sem í aðalatriðum frammi fyrir gerðum hlut. Þessar breytingar á alþjóðasamningum eru orðnar og við fáum því væntanlega ekki breytt. En maður hlýtur að láta það eftir sér að hafa sína skoðun eftir sem áður og taka afstöðu til hlutanna.