Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 14:30:04 (7009)

2002-04-05 14:30:04# 127. lþ. 112.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Greinilega kom fram í ræðu hv. þm. að hann vill ekki að réttur til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum gildi jafnt um allar þjóðir. Það er auðvitað mjög athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að hann er að tala um að við eigum frá fyrsta degi að bjóða velkomna hingað til landsins erlenda menn og leyfa þeim að taka þátt í kosningum hér á landi sem hann telur raunar líka að eigi að vera forsendan fyrir því að við höfum heimild til að skattleggja tekjur sem erlendir menn hafa af vinnu sinni hér á landi, og ruglar öllu þessu saman.

Auðvitað hljótum við að meta það hverju sinni hversu langt við viljum ganga í samstarfi við aðrar þjóðir. Auðvitað hljótum við að ákveða slíkt á okkar forsendum. Auðvitað látum við ekki aðrar þjóðir ákveða fyrir okkur hvaða rétt við viljum veita þeim.